Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það er gott og blessað að ná betri skilvirkni og svoleiðis, en ég spurði: Af hverju er búið að taka markmiðin og mælikvarðana burtu? Ráðherra gleymdi að svara því. Það er þannig varðandi þá mælikvarða og þau markmið sem eru sett fyrir skipaflotann og fyrir flugvélina að þar höfðum við einmitt ekki verið að ná markmiðinu þrátt fyrir betri skip og ýmislegt svoleiðis, hvað þá þyrlurnar. Við vitum einfaldlega ekki hvaða markmiðum á að ná. Það er það sem ég er að gagnrýna. Það eru tekin burt þau markmið og mælikvarðar sem hafa farið niður á við á undanförnum árum, þar sem er ekki búið að ná settum markmiðum, sem mér finnst mjög skrýtið. Kannski eru þetta léleg markmið, lélegir mælikvarðar, og þá má endilega skipta þeim út en þau verða að vera einhver til að við vitum hvaða árangri við ætlum að ná með úthlutun ríkisfjár.

Annað sem ég rak augun í er fjöldi daga þar til niðurstaða um alþjóðlega vernd liggur fyrir. Þar er farið yfir stöðuna 2022 þar sem málsmeðferðartíminn er að meðaltali 124 dagar hjá Útlendingastofnun, fyrir utan náttúrlega afgreiðsluna varðandi Úkraínu, og 48 dagar hjá kærunefnd útlendingamála, 172 dagar samtals. Á næsta ári á málsmeðferðartíminn hjá Útlendingastofnun að vera 90 dagar, sem er fækkun og er frábært, en 90 dagar hjá kærunefnd útlendingamála, 180 dagar alls. Það er gert er ráð fyrir því að málsmeðferðartíminn í heild sinni lengist um átta daga. Ég hélt að það ætti stytta þetta um alla vega eina viku miðað við hvernig lögin voru uppsett. Ég fatta því ekki alveg hvað er í gangi hérna.