Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:54]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er í raun bara mjög ánægjulegt hversu vel þingið og fjárveitingavaldið hefur tekið í rökstuddar beiðnir okkar um eflingu á þessum þáttum sem snúa að rannsókn og saksókn í viðkvæmum málaflokkum. Eins og hv. þingmaður fór hér yfir þá var bætt við 200 milljónum á síðasta ári og því fylgt síðan eftir, það var varanlegt aukið framlag sem leiddi til þess, eins og ég kom inn á í inngangsorðum mínum, að við gátum auglýst lausar stöður, gátum fjölgað í rannsókn og saksókn í þessum viðkvæma málaflokki og gert á sama tíma ákveðnar skipulagsbreytingar sem voru partur af þeirri vinnu sem við settum í gang strax í byrjun árs 2022 með lögreglustjórunum í landinu og er það skipulag sem við erum að innleiða núna með styrkingu m.a. lögregluembætta úti um allt land. Einnig var lögregluembættum á Suðurnesjum og á Norðurlandi eystra, Akureyri, þeim gert kleift að ráða til sín starfsfólk sem sérstaklega er þjálfað og hefur þekkingu í því að fara inn í tölvur, síma og slíkt sem mjög oft tengjast slíkum brotum. Við höfum því aukið afköstin á því sviði mjög mikið líka.

Þetta hefur haft það í för með sér að nú þegar hefur málsmeðferðarhalinn styst um 40% hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, eins og ég kom inn á áðan, og það er gríðarlega jákvætt. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum þar þá telur hún að við séum að ná mjög ásættanlegum málsmeðferðartíma í þessum viðkvæma málaflokki. Tilkynningum hefur fjölgað sem við segjum að beri með sér aukið traust til kerfisins og kannski eiga lögin, sem við fengum samþykkt í þinginu samhljóða síðastliðið vor, sem ég held að hafi verið gríðarlega mikið framfaraskref, lögin um réttarstöðu brotaþola sem voru búin að vera í ágreiningi hér í mörg ár, en okkur tókst að leiða þennan ágreining í jörð og fá þetta samþykkt hér samhljóða í þinginu í fyrravor.