Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:17]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er svo sem engin launung að það er ákveðinn stigsmunur á skoðunum flokkanna í ríkisstjórn í þessum málaflokki. Það er öllum ljóst. Það þarf að leita málamiðlana í þessu stjórnarsamstarfi til að ná fram nauðsynlegum skrefum. Hv. þingmaður gerir nú gjarnan lítið úr þeim merka áfanga sem hér varð við að ná loksins afgreiðslu á þessu frumvarpi um útlendingalögin. Ég vil þá bara segja við hann að oft er það nú þannig að lítil þúfa veltir þungu hlassi og ég ætla að spá því að áhrif þessa frumvarps og þeirra reglugerða og annarra ráðstafana sem við verðum að grípa til muni bera árangur í þessum efnum. Við erum auðvitað að glíma við sérstaklega mikil vandamál. Það er reyndar fjölgun í öllum þjóðfélagshópum sem hingað leita en sérstaklega er stórt vandamál þessi mikla innkoma fólks frá Venesúela hingað þar sem við höfum verið að skilgreina aðstæður með allt öðrum hætti heldur en gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. Við skerum okkur úr í Evrópu. Það er ástæðan fyrir því að þetta fólk streymir hingað. Nú hefur Útlendingastofnun endurskoðað og endurmetið stöðuna í Venesúela á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hefur fengið, m.a. frá Noregi sem nýlega sendi sendinefnd og skilaði skýrslu um stöðuna í Venesúela og reyndar frá öðrum löndum, og hefur á grundvelli þess hafið að synja umsóknum umsækjenda frá Venesúela. Nú er beðið eftir því að kærunefndin fjalli um þær synjanir og við sjáum hvað kemur út úr því, hvort hún áfram metur málin með öðrum hætti heldur en stofnunin gerir og aðrar stofnanir sambærilegar í Evrópu. Við erum síðan að vinna að þessu í mörgum öðrum þáttum og það eru margir þættir í frumvarpinu sem munu hjálpa okkur í þessum efnum. (Forseti hringir.) Af því að þingmaðurinn spyr: Hvenær verður gripið til raunverulegra aðgerða? (Forseti hringir.) þá ber ég traust til þess að ég sé á þeirri vegferð.