Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:21]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Síðustu vikur hafa málefni háskólanna vakið talsverða athygli og ég fagna allri umræðu um þetta mikilvæga skólastig. Háskólarnir okkar eru góðir en við getum alltaf gert miklu betur. Í kjölfar efnahagshrunsins voru fjárveitingar til háskólanna skornar niður og ég hef sagt að það megi sjá vísbendingar um að þróunin sé farin að bitna á gæðum háskólanáms. Við það verður ekki unað. Alþjóðlega samkeppnishæfir háskólar eru lykillinn að auknum hagvexti og bættum lífskjörum auk þess sem háskólar gegna mikilvægu hlutverki í upplýstri samfélagslegri umræðu. Það er kominn tími til að sækja ákveðnar fram og það er boðað til nýrrar sóknar í fjármálaáætlun fyrir háskólana. Áætlunin er í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um að fjárfesta í vaxtartækifærum til framtíðar og gera háskólunum kleift að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Vandinn í efnahagslífinu nú er margvíslegur en besta leiðin til að leysa vandann er að vaxa út úr honum og þar gegna háskólarnir, ásamt vísindum, nýsköpun og sjálfbærum þekkingariðnaði, algjöru lykilhlutverki. Til skamms tíma þarf nauðsynlega að fjölga nemendum og efla vísindastarf í heilbrigðisvísindum. Þegar horft er til lengri tíma þurfa skólarnir að leggja grunn að fjölbreyttu atvinnulífi og ekki síst styðja við vöxt alþjóðageirans svo að við fjölgum stoðum íslensks efnahagslífs og aukum verðmætasköpun.

Stærsta breytingin á mínum málefnasviðum í fjármálaáætlun er fjármögnun háskóla en áætlunin felur í sér 6 milljarða aukningu til háskólastigsins næstu fimm árin samanborið við fyrri áætlanir. Tímabundin framlög vegna Covid sem námu 2,4 milljörðum munu ekki ganga til baka heldur vera gerð varanleg, auk þess sem strax á næsta ári verður settur 1 milljarður til viðbótar til styrkingar háskólanáms. Framlög ríkisins til skólanna verða 3,5 milljörðum hærri árið 2024. Þetta er mikið ánægjuefni en í þessari nýju sókn legg ég áherslu á að auknar fjárveitingar fari í að bæta gæði háskólanáms og rannsókna og til nýrra verkefna í háskólanum en ekki í óbreytt kerfi. Með þeirri fjármálaáætlun sem nú er kynnt er lagður grunnur að því. Á næstu mánuðum verður unnt að prufukeyra nýtt reiknilíkan háskóla sem verður haft til hliðsjónar við fjárlagavinnu ársins 2024. Það mun leggja áherslu á gæði háskólanáms og stöðugri fjárveitingu. Því er líka ætlað að auka gegnsæi, efla rannsóknir, koma stefnu stjórnvalda á framfæri og bæta fjármögnun náms frá núverandi líkani en í því sambandi má t.d. nefna félags- og hugvísindi.

Auknar fjárveitingar til háskólanna eigi ekki að fara í óbreytta starfsemi heldur til breyttra verkefna. Á síðasta ári setti ég á laggirnar samstarf háskóla og með því höfum við laðað fram fjölmörg áhugaverð verkefni sem verða nú að veruleika. Samstarfið hefur verið verkfæri til að ýta undir samkeppni um viðbótarfjármagn til að draga fram áhugaverðar hugmyndir sem sumar hverjar eru nýlegar en aðrar eldri og hafa ekki orðið að veruleika. Afraksturinn er aukið samstarf milli háskólanna og óskastaðan er að við sjáum sameiningu á milli þeirra. Árangurinn er góður og ný fjármálaáætlun tryggir fjármagn til að halda áfram með samstarf háskóla á næsta ári.

Hvað varðar Menntasjóð námsmanna lækka þau framlög í heild vegna þess að lánþegar eru færri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.

Jafnréttismál eru síðan og verða áfram forgangsmál ríkisstjórnarinnar og tækifæri eru til að auka jafnrétti á öllum þeim málefnasviðum sem heyra undir ráðuneyti mitt. Þar má nefna að með nýju reiknilíkani er ætlunin að bæta gæði fjarnáms og fjármögnun vegna fjarnáms til að tryggja jafnari tækifæri til menntunar óháð kyni, búsetu, efnahag og uppruna. Það verður líka horft sérstaklega til drengja er við skoðum háskólanámið, fólks af erlendum uppruna, fólks með brotinn félagslegan bakgrunn og að bæta aðgengi fatlaðs fólks áfram að háskólanámi.

Hlutur kvenna í fjármagni sem veitt er til vísinda og nýsköpunar er lítill miðað við karla og það kemur að hluta til inn í vinnuna varðandi nýsköpunarþáttinn. Það er mikilvægt að stuðningsumhverfi nýsköpunar sé skilvirkt og gagnsætt og ég mun leggja það til að opinberum sjóðum verði fækkað verulega, þeir sameinaðir og skilvirkni þeirra aukin, að vinnubrögð og skipulag verði samhæft og árangur þeirra sé mældur. Það mun ekki bara spara opinbert fjármagn heldur liðka til og einfalda ferlið fyrir frumkvöðlafyrirtækin sem gegna mikilvægu hlutverki í hagkerfinu okkar. Í þessu eins og mörgu öðru getum við farið betur með fjármuni.

Þá er það málaflokkur fjarskipta en fjármunir til fjarskiptasjóðs eru til að tryggja fjármögnun skilgreindra forgangsverkefna sem birtast í fjármálaáætluninni, bæði ljósleiðaravæðingu þéttbýlisstaða og byggðakjarna utan markaðssvæða, samfellda útbreiðslu tal- og netsambands á öllum stofnvegum á láglendi, samstarfsvettvang fræðslu, menntunar og rannsókna á sviði netöryggis, netöryggisvöktunarmiðstöð Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Fjarskiptasjóður fær samtals 450 millj. kr. í framlög á ári 2023–2025 en það er byggt á grundvelli þess að tekjur ríkisins eru að aukast um 750 millj. kr. vegna endurúthlutunar tíðniheimilda. (Forseti hringir.)

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að segja að ég er mjög ánægð með þá fjármálaáætlun sem ég fylgi hér eftir í dag á mínum málefnasviðum. Hún gefur tækifæri til þess að unnt sé að fara af stað með nýja sókn í þágu háskóla og samfélags á mörgum sviðum og ég hlakka til að eiga samtal við þingmenn um málin.