Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:34]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins varðandi styttingu framhaldsskólans þá verð ég að vera ósammála því að það sé hægt að benda á þá styttingu sem einu ástæðu þess að nemendur eru í dag verr undirbúnir til að koma inn í háskólana. Við hljótum að geta menntað nemendur á sama tíma og með sömu gæðum og löndin í kringum okkur gera. Það sem ég held að hafi mikil áhrif á hvernig nemendur eru að koma inn í háskólana núna er m.a. Covid, að það hafi haft mikil áhrif á nemendur. Ég held líka að við séum bara að fara að stíga inn í mjög breytta þróun gagnvart endurmenntun, símenntun, að sækja sér styttra háskólanám, endalausar viðbætur, af því að hlutirnir eru að breytast svo hratt. Við vitum eiginlega ekki hversu miklar og stórar breytingar munu verða m.a. með gervigreindinni. Það er ekki ein samfelld námsleið eða námslína og svo ferðu út og vinnur og þá ertu búinn með þitt nám á þinni lífsleið. Ég held að hugarfarið okkar þurfi að breytast alfarið í þessum efnum og þá sé kannski ekki beinlínis hægt að horfa bara til þess að lengja framhaldsskólann aftur sem lausn á þeim stóru áskorununum.

Varðandi Menntasjóð námsmanna þá erum við að stíga þau skref að námsmenn sem eru nýbakaðir foreldrar, sem er í meira mæli hér en annars staðar, t.d. í löndunum í kringum okkur, fái meira svigrúm til að víkja frá kröfu um námsframvindu eins og kallað hefur verið eftir. Við erum í endurskoðun á lögunum sem eru mjög stórar og miklar breytingar. Það sem hefur komið fram í byrjuninni á þeirri endurskoðun er hvað athugasemdirnar eru miklar og stórar við núverandi löggjöf. Í fyrra þá hækkuðum við grunnframfærsluna líka um 18%, meira en bara verðlagsbreytingar, til að reyna að styrkja þessa stoð nemenda gagnvart grunnframfærslunni í menntasjóðskerfinu.

Síðan höfum við verið að skoða aðeins virkni nemenda, af því að það hefur oft verið talað um að virkni nemenda hér sé minni heldur en í löndunum í kringum okkur og það hefur ekki verið rétt. Hún reynist sambærileg og í löndunum í kringum okkur. Við sjáum ekki vísbendingar um að það sé minni virkni (Forseti hringir.) í háskólanum meðal nemenda þó að við séum að sjá að færri taki námslán. (Forseti hringir.) Við gætum haldið áfram með þessa umræðu lengi en ég vona að þetta hafi svarað flestum spurningum þingmannsins.