Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:39]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að það sé mikilvægt að við náum að tala um Menntasjóð námsmanna og hvernig kerfi við viljum byggja upp til stuðnings fyrir nemendur. Oft hefur verið rætt um að við þurfum námslánakerfi og það sé þannig úr garði gert að nemendur þurfi ekki að vinna með námi af því að nám sé full vinna. Á hinn bóginn er síðan rætt um að kerfið þurfi að vera þannig að þau geti unnið meira og það þurfi að vera sveigjanlegra, þau þurfi hvort sem er að vinna en það bitni auðvitað á tekjum þeirra úr námslánakerfinu. Það sem við erum að skoða núna, það er allt kerfið. Ég hef verið að skoða þessi frítekjumörk atvinnutekna, sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega, og hef m.a. verið að horfa til þess hvernig við getum stigið skref í því að hækka þetta frítekjumark, sér í lagi kannski að horfa til leiða sem einhver lönd í kringum okkur hafa farið, að hafa frítekjumarkið tvíþætt, þar sem það er ekkert frítekjumark á þeim tímum þegar skólinn er ekki, eins og í sumarfríum, páskaleyfi um, jólafríum o.s.frv. Sumir telja að það sé of flókin leið til að fara í staðinn fyrir að hækka frítekjumarkið síðan almennt. Þetta er hluti af þeirri vinnu sem stendur núna yfir í ráðuneytinu varðandi endurskoðun á námslánakerfinu sem var kveðið á um í nýju lögunum sem samþykkt voru fyrir rúmum tveimur árum síðan. Það sem við erum líka að sjá er að við tölum oft um að íslenskir nemendur séu að vinna svo mikið með námi og að það bitni á virkni þeirra í háskólastarfi. Það var gaman að sjá að það er ekki að gera það. Íslenskir nemendur eru jafn virkir nemendur í háskólastarfi og að skila af sér jafn miklu og nemendur á Norðurlöndunum. Þannig að það er ekki að sjá að þó að þeir vinni nú þegar mikið, í hlutastörfum og fleira, með námi að það sé að bitna á virkni þeirra í námi.

Þetta er umræða sem ég mun koma með í skýrslu í haust inn í þingið sem verður skýrsla (Forseti hringir.) um stöðu námslánakerfisins og á grundvelli þeirrar umræðu í þinginu mun ég síðan ráðast í breytingar á næsta ári.