Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég vona að hæstv. ráðherra geti kannski tekið aðeins betur saman við tækifæri hvernig hún sér fyrir sér að fjármagna netöryggið og annað, hvernig þetta nær — þó að þetta sé á mismunandi stöðum og erfitt að gera í fjármálaáætlun.

Mig langaði í seinni hlutanum að fjalla aðeins um nýsköpun. Það ætti kannski ekki að koma hæstv. ráðherra á óvart. Nýsköpun er eitt af þeim sviðum þar sem mikilvægt er að við séum að fjárfesta í framtíðinni, mikilvægt að við séum að styðja vel við sprotafyrirtæki sem eru að vaxa og tryggja þannig að við séum að búa til fleiri stoðir undir samfélagið þannig að við getum tryggt að við séum ekki að lenda í stórum áföllum, t.d. eins og gerðist með Covid þegar ein af stoðunum hreinlega hvarf á einni nóttu. Það er ekki finnst mér í þessari áætlun farið neitt djúpt í það hvernig ráðherra sér fyrir sér að fjármögnun og uppsetning á stuðningi við nýsköpun breytist á tímabilinu. Það er kannski ekki mikið af upplýsingum hérna inni um stefnubreytingar í þeim málum og m.a. fjallað um að það eigi að fara í vinnu við að búa til áætlun um framtíðarskipulag, samkeppnissjóð og annað. Mig langaði að vita hvort hæstv. ráðherra gæti gefið örlitla innsýn í hvað hún er að hugsa í því sambandi.