Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:54]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Við erum að sjá 6 milljarða aukningu til háskólastigsins á tímabili áætlunarinnar þar sem við erum að halda inni Covid-framlögunum og að tryggja nýtt reiknilíkan. Í nýju reiknilíkani munum við sjá aukinn stuðning og kannski réttar reikniformúlur eins og fyrir félagsvísindin sem hafa bent á það ríkulega að það hefur vantað upp á að þau séu nægilega fjármögnuð af því að reiknilíkanið hefur ekki verið uppfært í lengri tíma og þá er verið að horfa til þessarar undirfjármögnun greina sem eru m.a. félagsvísindi.

Síðan nefnir hv. þingmaður áhersluna á STEAM-námið. Það er þannig að við erum einfaldlega að mennta færri í STEAM-greinum og heilbrigðisvísindum en löndin í kringum okkur. Við erum eina landið á Norðurlöndum sem nær yfir 60% af útskrifuðum úr háskóla sem eru úr viðskiptafræði, félagsvísindum, hugvísindum og menntagreinum á meðan Norðurlöndin eru með í kringum 50% í þessum greinum og 50% úr heilbrigðisvísindum og STEAM-greinum. Af hverju flokka ég í þessar tvær flokkanir? Það er bara af því að seinni flokkunin er með mun dýrari námsgreinar. Það kostar helmingi meira, sirkabát, að mennta nemendur í þeim greinum en í hinum þannig við þurfum auðvitað líka að skoða þennan mun þegar við berum saman Norðurlöndin. Það að hafa aukna áherslu á STEAM-greinar núna finnst mér ekki óeðlilegt af því að okkur vantar fólk í þessar greinar. Það getur hv. þingmaður séð á öllum atvinnuauglýsingum, stöðu þeirra greina sem við erum að sjá vaxa í fjármálaáætlun, hvort sem við horfum á landeldi, alþjóðageirann, hugverkaiðnaðinn — alla þessa flóru af nýjum atvinnutækifærum sem munu ekki vaxa nema við eigum fólk í þau störf og að sama skapi í heilbrigðisvísindum. Við munum ekki geta ráðið við öldrun þjóðarinnar nema eiga fleiri heilbrigðismenntaða (Forseti hringir.) og þá þurfum við að sýna og fjárfesta í því núna gagnvart háskólunum af því að við sjáum ekki árangur af því fyrr en eftir einhver ár. En það er auðvitað síðan — já, ég næ því kannski á eftir.