Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:02]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það er tvennt sem ég myndi vilja koma inn á við hæstv. ráðherra. Annað tilheyrir málefnasviði sem er á ábyrgð ráðherrans en hitt er kannski meira almennar hugleiðingar um það sem ég held að sé sameiginlegt áhugamál okkar beggja, sem er aukin skilvirkni í ríkisrekstri og meiri fókus á það hvað ríkisvaldið á að gera og hvað ekki. En mig langar að byrja á frumkvöðlum og nýsköpun. Það er talað mjög mikið um að hugvitið eigi að vera okkar mesta auðlind og ég er hjartanlega sammála því og hér eru margar forsendur til staðar til að gera það. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra hefur verið að segja um sjóðaumhverfið, tölurnar sem nefndar eru í þessu samhengi hljóta að kalla á það í ekki stærra samfélagi að við förum í einhverja rýni á því og reynum að gera þetta skilvirkara með því að fækka og einmitt minnka umsýslukostnað hjá bæði hinu opinbera og fyrirtækjunum sem sækja í þetta. Það sem mig langar að spyrja ráðherra um er ekkert komið inn á í fjármálaáætluninni og kemur kannski ekki mikið á óvart. Það er verið að tala um áskoranir sem blasa við, þar á meðal hjá frumkvöðlum og nýsköpunarfyrirtækjum, og stærsta áskorun og kannski stærsta hindrun nýsköpunarfyrirtæki á Íslandi samkvæmt könnunum sem gerðar hafa verið er gjaldmiðillinn okkar, íslenska krónan. Í nýlegri könnun sem Gallup gerði fyrir Tækniþróunarsjóð um umhverfi nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi voru 74% aðspurðra sem töldu að séríslenskur gjaldmiðill hefði neikvæð áhrif á rekstur nýsköpunarfyrirtækja. Þarna var verið að senda spurningalista á 735 fyrirtæki þannig að ég myndi nú halda að þetta væru svolítið marktækar niðurstöður. Og eins ágætt og það er nú að móta stefnu í öllu þessu sem ráðherra hefur rætt um og talað um þá langar mig að spyrja — og ég átta mig alveg á því að ég er ekki að fara að fá hæstv. ráðherra til þess að skipta um skoðun í þessum málum: Er ekki full ástæða til þess að hlusta (Forseti hringir.) og gera eitthvað með þær upplýsingar þegar 74% þeirra af þessu stóra þýði segja að stærsta áskorunin og hindrunin og helsta viðskiptahindrunin sé gjaldmiðillinn?