Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil auðvitað fagna og taka undir lokaorð hæstv. ráðherra hér rétt er hún steig úr pontu. En ég ætla að gera meira af því að hrósa hæstv. ráðherra. (háskólarh.: Nú?) Hæstv. ráðherra var í afbragðsgóðu viðtal í Dagmálum þann 23. mars 2023. Dagmál eru sem sagt sjónvarp Morgunblaðsins. Þar var hæstv. ráðherra í viðtali hjá Andrési Magnússyni, ef ég man rétt, og barst tal þeirra að ríkisfjármálum. Það sem ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra fyrir er sá tónn sem ráðherra sló í þessu viðtali þar sem ráðherrann sagði m.a., með leyfi forseta: „Þetta gengur ekki upp, það er bara svoleiðis.“ Þar var rætt um ríkisfjármálin eins og þau virtust vera að þróast. Áfram sagði hæstv. ráðherra: „Það er ekki hægt að verja fjármunum í hina ýmsu málaflokka þegar staðan er þannig að hið eina sem við eigum að gera er að berjast við verðbólguna. Þá skiptir miklu máli að við förum ekki í óþarfa útgjaldaþenslu. Það skiptir miklu máli að við beitum öllum þeim vopnum sem við eigum gegn verðbólgunni.“ Og áfram sagði: „Staðan í ýmsum málaflokkum er þannig að það er búið að vera opinn krani og þá án sérstaks árangurs eða að það hafi verið skýr sýn á hvaða fjármunir væru að fara.“ Síðan hnykkti hæstv. ráðherra út með því að ýja að því að það væri skynsamlegt að horfa til þess að fækka ríkisstarfsmönnum.

Þetta þótti mér afbragðsgott viðtal við hæstv. ráðherra en nú langar mig að spyrja, af því að það er búið að fara í meginhluta þeirra atriða hér í umræðunni sem ég ætlaði mér að spyrja um: Hvernig þykir hæstv. ráðherra hafa tekist til í þessari fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir ef við horfum til að mynda til sjónarmiða sem koma fram í umsögnum fjármálaráðs og Samtaka atvinnulífsins, svo dæmi séu tekin?