Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:14]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að rifja upp þetta afbragðsgóða viðtali, eins og hv. þingmaður nefnir það. Ég var að tala líka um allar beiðnirnar um útgjöld sem var verið að óska eftir til að bregðast við verðbólgunni og sagði að það væri engan veginn hægt að bregðast við öllum þeim útgjaldaóskum sem koma fram, hvort sem þær koma úr þessum sal eða frá samfélaginu, á þessum tíma í hina ýmsu málaflokka af því að eina verkefnið okkar væri að verjast verðbólgu. Ég held að það hafi tekist ágætlega. Við sjáum að verðbólguvæntingar eru að lækka og við erum að sjá að hér stigin skref til hagræðingar í ríkisrekstri í þessari fjármálaáætlun. Ég er auðvitað sammála hv. þingmanni um það að við getum alltaf gert betur og ég er bara þannig þenkjandi að það sé alltaf hægt að gera betur er kemur að ríkisfjármálunum. Við eigum alltaf að hugsa hvaða leiðir við getum farið. Við erum að efla og fjárfesta í mikilvægum innviðum, við erum að byggja upp ákveðin kerfi. Ég tel mikilvægt við séum að fjárfesta í háskólunum fyrir vaxtartækifæri framtíðarinnar. Við erum að gera stórar breytingar í þessari áætlun á málefnum öryrkja. Við erum að byggja nýjan Landspítala og þess háttar. En við getum á sama tíma skoðað og velt fyrir okkur hverri krónu gagnvart því hvernig við getum farið betur með fé. Mesta súrefni útgjaldaaukningar þessarar ríkisstjórnar frá upphafi hefur verið í heilbrigðismálum og þar tel ég að við getum gert betur með því að innleiða nýsköpun og nýja tækni, fara betur með það fé sem hefur farið þangað, nota einkarekstur betur, svo dæmi séu tekin, og voru skref í þá átt tekin í síðasta mánuði varðandi liðskiptaaðgerðir o.fl. til þess einmitt að nýta fjármunina betur í kerfinu.

Ég hef lagt mitt af mörkum í mínu ráðuneyti (Forseti hringir.) með því að búa m.a. til Fléttuna sem var til að minnka kostnað heilbrigðisstofnana með því að nýta einkaframtakið, nýjar lausnir inni hjá sér til þess að bjóða upp á betri þjónustu fyrir minni útgjöld. (Forseti hringir.) Ég held einmitt að nýsköpunin verði að vera stór þáttur í því ef okkur ætlar að takast að búa til kerfi sem sýnir að við erum 350.000 manna þjóð en þarf á sama tíma ekki að vera þunglamalegt (Forseti hringir.) og kostnaðarsamt kerfi. Við þurfum að nýta nýsköpun og lausnir einkaframtaksins sem til eru á Íslandi í fyrir hið opinbera kerfi.

(Forseti (DME): Ég minni hæstv. ráðherra og hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)