Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:37]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna hér í dag. Í fyrsta lagi þá höfum við á Íslandi verið að sjá eilítið hærra nýgengi örorku heldur en á hinum Norðurlöndunum, sérstaklega þegar kemur að ungu fólki. Þetta er bæði í hópi kvenna og karla, en er fyrst og fremst vegna þess að fólk á við einhvers konar geðrænar áskoranir að stríða. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta er að sjálfsögðu sameiginlegt verkefni heilbrigðisráðuneytis og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, reyndar eitt af því sem við, ráðherrarnir tveir, vorum að ræða á norrænum vettvangi því þetta er sameiginleg áskorun alls staðar á Norðurlöndum. Því getum við lært margt af öðrum.

Við höfum samt sem áður séð nýgengið lækka í öllum aldurshópum á síðustu árum. Fyrst, þá hefur fjölgað í hópi þeirra sem eru á endurhæfingarlífeyri með aukinni áherslu á það að reyna að koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn. Síðan í heild sinni, ef þetta er lagt saman við örorkulífeyrisþega, þá hefur aðeins fækkað líkt og gerðist árið 2021 og var þetta mjög svipað á árinu 2022.

Í ráðuneyti mínu er að störfum samhæfingarnefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði sem er m.a. ætlað að móta, í fyrsta sinn á Íslandi, heildstæða stefnu um málefni ungs fólks á vinnumarkaði og á ekki síst að taka á málefnum hins svokallaða NEET-hóps, þ.e. fólks sem er ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun. Þetta er hópur sem hefur ekki sömu tækifæri og aðrir og þarf meiri aðstoð við að komast í nám, út á vinnumarkað eða í aðra virkni. Það er afskaplega mikilvægt að við getum aukið það til muna.