Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í umfjöllun um málefnasvið 27 kemur fram að á tímabili áætlunarinnar verði settir 16,3 milljarðar kr. í heildarendurskoðun örorkulífeyriskerfisins en hæstv. ráðherra sagði að þetta yrðu 16 milljarðar á ári. Þarna á milli er bara himinn og haf. Þarna munar um hvort við erum að tala um 10.000 kr. á mánuði eða 50.000 kr. á mánuði. Ég myndi vilja fá svar við því.

Svo hefur komið fram að heildarendurskoðunin muni sennilega ekki taka gildi fyrr en um áramótin 2024/2025. Ég vil spyrja ráðherrann hvort þessar 16,3 milljónir á ári, eða yfir allt tímabilið, komi aðeins inn eftir að heildarendurskoðun hefur gengið í gegn.

Þá hefur hæstv. forsætisráðherra nefnt að brátt verði lögð til hækkun á fjárhæð almannatrygginga, svokölluð verðbólguvörn. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um hvernig sú hækkun mun fara fram. Verður þetta hækkun á öllum fjárhæðum, umreiknaðar prósentur eða eingreiðsla eða eitthvað annað?

Svo vil ég spyrja: Hvað mikið telur ráðherra að þurfi að hækka örorku- og ellilífeyri til að tryggja vernd fólks gegn verðbólgu sem mælist nú í kringum 10%? Og ef það á að setja þessa hækkun inn í kerfið, eins og hefur alltaf verið gert, hvort hann ætli þá að sjá til þess að hún sé skattlaus, vegna þess að annars veldur hún keðjuverkandi skerðingum um kerfið og sumir fá ekki neitt. Við vitum t.d. að nú er verið að tala um endurskoðun almannatrygginga í sambandi við vinnu og annað. Verst settu öryrkjarnir, sem verða 18 ára öryrkjar, eru í þeirri aðstöðu að ef þeir hafa engar tekjur og ætla að fara að vinna þá eru fyrstu 95.000 kr. núll hjá þeim liggur við. Það eru 20.000 kr. að skila sér og það er 80% skattur og skerðingar. Það er vegna sérstöku uppbótarinnar. Ég spyr ráðherra hvort hann sé búinn að skoða þetta allt saman og hvort þetta verði allt tekið inn í þessa endurskoðun sem er fram undan.