Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er auðvitað alveg frábært ef það er rétt að þetta verði þessir 16 milljarðar. Það eru miklu betri tala heldur en hin.

Þá snúum við okkur að öðru. Það er ekkert nema gamla vísan endurtekin í lífeyrismálum aldraðra og ekkert aukalega sem ríkisstjórnin telur sig þurfa að gera í framtíðinni fyrir þennan hóp. Það eru 60–70% konur sem búa við lökustu kjörin af öldruðum og ekkert í spilunum um að það breytist í náinni framtíð. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort honum finnist það eðlilegt að konum séu mismunað svo gróflega í þessu kerfi. Aldraðir ríkisstarfsmenn eru hver af öðrum að verða fyrir áfalli þegar þeir fara á eftirlaun. Það er vegna þess að afturvirkar skerðingar eru eins og högg undir beltisstað við það eitt að fara á eftirlaun, og það vegna kerfisbreytinga í ellilífeyriskerfinu þeirra.

Því miður mun ekki einu sinni duga að nota kjarnorkuknúinn kafbát til að kafa til botns í þessu botnlausa almannatryggingakerfi til að ná í og eyða skerðingunum í kjarna þess. Ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur vísvitandi og viljandi brotið lög um almannatryggingar er þær spá fyrir um meðaltal launahækkana fram í tímann samkvæmt 69. gr. Þær spá alltaf viljandi mun minni hækkun en raunverulega hækkunin er. Þótt það komi fram í lok ársins að það sé röng spá er það aldrei leiðrétt. Þetta er ólögleg kjaragliðnun og ekkert annað en brot á stjórnarskrá og lögum um almannatryggingar. Ég spyr því ráðherra: Finnst honum þetta eðlilegt? Það er spáð fram í tímann og það er aldrei spáð rétt. Svo þegar rétta niðurstaðan kemur er ekkert gert í málunum. Ég bara spyr: Hvernig finnst honum þetta? Þetta hlýtur að vera brot á stjórnarskrá, þetta hlýtur að vera brot á lögum. Að gefnu tilefni vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ríkisstjórnin ætli ekki að fara að hætta að skattleggja fátækt.