Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:02]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028 og nú þau málefnasvið og málaflokka sem eru á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðherra. Mig langar eins og fleiri að byrja á að ræða sérstaklega málefnasvið 27, sem er örorka og málefni fatlaðs fólks. Spurningarnar sem ég vil leggja fyrir hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra eru í rauninni um það með hvaða hætti fjármálaáætlunin styður við markmið stjórnarsáttmálans um umbætur í málaflokknum og sérstaklega að hann fari kannski nánar ofan í það hvernig þjónustan muni breytast við fólk, nánar en komið hefur fram hér fyrr í umræðunni þar sem kannski hefur meira verið talað um tölur og vinnuna sem er í gangi. Hvað sést inn í breytinguna sem við eigum eftir að sjá á almannatryggingakerfinu og þjónustunni?

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á endurskoðun og umbætur í málefnum öryrkja þar sem m.a. verði sérstaklega horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Vinnan er í gangi, eins og hér hefur komið fram, og velferðarnefnd, þar sem ég er formaður, hefur fengið kynningu á vinnu stýrihópsins sem leiðir verkið og nálgunina á verkefnið. Ég sjálf hef miklar væntingar til þeirrar vinnu, bæði um breytingar í heildina á kerfunum og þjónustunni en líka að það takist að laga ýmsar áskoranir og árekstra sem eru innbyggðir í kerfið nú þegar, sem hafa ekki alltaf mikil fjárhagsleg áhrif eða áhrif á heildarfjármagnið en geta haft mikil áhrif á einstakar fjölskyldur. Það er kannski rétt að koma aðeins inn á það hér að Alþingi hefur nú þegar afgreitt nokkur mál tengd þessari vinnu, svo sem eins og breytingu á frítekjumarki og skerðingarhlutfalli atvinnutekna og fleira.