Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér af öllu afli til að kalla fólkið okkar heim sem er að vinna í útlöndum og líka hin sem hafa yfirgefið vettvanginn og eru í öðrum störfum hér innan lands vegna þess að annars blasir við neyðarástand. Við þurfum að kosta ýmsu til til að taka á þessum vanda.

Frú forseti. Það var í byrjun febrúar á þessu ári, í óundirbúnum fyrirspurnatíma, sem ég spurði hæstv. heilbrigðisráðherra að því hvað hann vildi kalla heilbrigðiskerfi þar sem ríkið greiðir fyrir þjónustu sérgreinalækna í einkarekstri og sjúklingarnir greiða læknunum auk þess umtalsverðar upphæðir fyrir hverja komu. Við stöndum frammi fyrir því, frú forseti, að greiðsluþátttökukerfið okkar virkar ekki og við náum ekki markmiðum okkar um að öll heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg fólki óháð efnahag. Tilvikum fjölgar þar sem fólk frestar því að fara til læknis vegna þess að það hefur ekki efni á því og slíkt ófremdarástand er algjörlega óþolandi.

Hæstv. heilbrigðisráðherra svaraði fyrirspurn minni svona, með leyfi forseta:

„Þetta er brýnt mál. Ég vil í fyrsta lagi segja það hér að ég hef gert þetta að algjöru forgangsmáli, að ná samningum við sérfræðilækna, svo það sé sagt hátt og skýrt hér úr þessum ræðustól.“

Frú forseti. Mér satt að segja létti við þetta svar því að ekkert velferðarkerfi lætur það gott heita að heilbrigðisþjónustan sé háð því hversu margar krónur sjúklingar eru með í veskinu sínu. Þetta svar ráðherra kom fyrir rúmum 11 vikum, samningarnir hafa verið lausir í rúm fjögur ár og það virðist ekkert vera að frétta. Heilbrigðiskerfið okkar er byggt upp að stórum hluta með heilbrigðisþjónustu í einkarekstri. Hefur hæstv. ríkisstjórn gefist upp á því að ná markmiðum um að heilbrigðisþjónustan sé aðgengileg fólki óháð efnahag? (Forseti hringir.) Hefur hæstv. ríkisstjórn gefist upp? Er hæstv. heilbrigðisráðherra úrræðalaus?