Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:45]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir umræðuna hér. Gott heilbrigðiskerfi skiptir öllu máli og gott aðgengi allra íbúa landsins skiptir gríðarlega miklu máli. Það er gott og löngu nauðsynlegt, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að byggja nýjan Landspítala en við megum ekki láta aðrar stofnanir líða fyrir á meðan. Í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, vantar alls staðar upp á að heilbrigðisþjónustan sé eins og best verður á kosið. Vil ég sérstaklega nefna Suðurnesin í því sambandi. Það er með öllum ólíkindum að Suðurnesin hafi verið látin sitja eftir í áratugi hvað varðar framlög til heilbrigðismála á svæðinu. Þar hafa framlög ekki fylgt þeirri miklu fólksfjölgun sem þar hefur verið. Er núverandi heilsugæsla var byggð var gert ráð fyrir að hún myndi anna um 7.000 manna byggð. Nú sinnir þessi heilsugæsla 30.000 manns og alþjóðaflugvelli. Sjúkrahúsið á Suðurnesjum býr við algjörlega óásættanlega stöðu hvað fjármögnun varðar. Þar er staðan þannig að samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá haustinu 2021 átti að klára húsnæðisframkvæmdir á stofnuninni. Þar strandar enn á að elsti hluti hússins verði lagfærður. Sjúkradeildin á annarri hæð er löngu komin á tíma og stefnir í að henni verði lokað ef ekki verður ráðist hratt og vel í endurbætur. Síðan vil ég sérstaklega nefna að starfsemi slysa- og bráðamóttöku er að stórum hluta ófjármögnuð. Staðarvaktalínur lækna eru tvær, allan sólarhringinn, alla daga ársins, og eru að mestu leyti ófjármagnaðar. Aðeins tvær stöður af 15 eru fjármagnaðar. Það er brýn þörf að fjármagna núverandi vaktalínu lækna sem og að fjölga þeim. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað standi til að gera til að tryggja íbúum Suðurnesja betri heilbrigðisþjónustu en nú er og tryggja fjármagn til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.