Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðrúnu Hafsteinsdóttur fyrir góða spurningu um þessa mikilvægu stofnun á Suðurnesjum sem er Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það er rétt, sem hv. þingmaður kom inn á, að miklar áskoranir hafa fylgt þeirri öru fjölgun sem hefur verið á svæðinu og mikið og aukið álag hefur verið á stofnuninni undanfarin misseri og ár. Samhliða hefur verið unnið í því að bæta þar aðstöðu. Þar hafa verið miklar framkvæmdir. Bæði er verið að byggja upp rannsóknardeild bráðamóttöku og 19 rýma legudeild. Bráðamóttakan er í þann mund að flytja í nýuppgert húsnæði sem á að vera bylting í aðbúnaði og vinnuaðstöðu og mun skipta verulega miklu máli. Það þarf að styrkja stofnunina frekar og við erum að vinna í því akkúrat í þessum töluðu orðum að gera það í gegnum aukna samvinnu Heilbrigðisstofnunarinnar við Landspítala, til að styrkja læknamönnun og til að nýta nýja 19 rýma legudeild þannig að frekara flæði verði á milli og hægt sé að nýta rýmin þannig að þyngri sjúklingar fari þá frekar inn á Landspítala og öfugt. Við erum þannig að reyna að ná upp samvinnu á milli þessara stofnana í samvinnu við þær, bæði til þess að manna þessa nýju legudeild og ekki síst til að styrkja læknamönnun. Það hefur t.d. þurft lyflækni á svæðið reglubundið. Það hefur verið í gegnum verktöku. (Forseti hringir.) Það er það sem akkúrat er verið að vinna í núna. Ég skal halda áfram með þetta í seinna andsvari.