Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir þetta innlegg hér. Það er rétt og ég tek undir með hv. þingmanni að þetta er mjög mikilvæg umræða. Þetta er mjög stór hluti, umfangið er 32% af rammasettum útgjöldum, en það er vegna þess að við erum með útgjöld utan ramma sem eru ekki í heilbrigðistengdri þjónustu heldur aðeins á málefnasviði 29, sjúkrabætur og slysatryggingar. Þegar hv. þingmaður talar um skýrleika og tölur þá er það hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á og við höfum margrætt í þinginu, m.a. í fjárlaganefnd, að gagnsæið er ekkert mjög mikið. En við erum líka að horfa á heildarmyndina, á áætlun þar sem við fáum heildartölurnar en ekki nákvæma rýni á því hvað útskýrir hækkun eða lækkun milli ára, hvað þá þessa hagrænu skiptingu sem hv. þingmaður kom inn á. Það er hárrétt og framsetning er skýrari í fjárlagaumræðu á hverju ári þar sem málaflokkarnir koma skýrar fram. Því get ég lítið annað en tekið undir með hv. þingmanni varðandi þetta.

Þegar kemur að sjúkrahúsþjónustunni sem hv. þingmaður kom inn á þá eru sveiflurnar í tölunum svolítið háðar þeim framlögum sem fara í uppbygginguna við Hringbraut, af því að þetta er allt sett í heildartölu, bæði reksturinn og fjárfestingarframlögin. Þar eigum við uppsafnaða 14 milljarða sem munu nýtast inn á þetta ár, sem dæmi um það hvernig ógagnsæið birtist. (Forseti hringir.) Til að greina þessar stærðir þarf vinnu í fjárlaganefnd og í síðari umræðu í þinginu, en kannski fyrst og fremst í fjárlagaumræðunni.