Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:27]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þetta svar. Ég horfi fyrst og fremst á tölurnar sem eru framlag til rekstrar en ekki á fjárfestingarhlutann. Ég met auðvitað mikils að verið sé að halda áfram með byggingu Landspítalans, sem skiptir okkur miklu máli. Ef ég horfi bara á tölur eins og í heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, þegar ég horfi á reksturinn, þá er verið að áætla 1,4% hækkun frá fjárlögum 2023 upp í áætlunina 2024 og svo 3% á árinu 2025; 1,6%, 2,4% og 1,6%. Ég næ ekki alveg utan um þetta. Hvernig eiga þessar tölur að standa undir launabreytingum sem þurfa að eiga sér stað eða ná utan um þann mönnunarvanda sem við blasir? Það þarf að bæta við fullt af fólki. Það er verið að tala um að heimila fólki að vinna á sjúkrahúsunum þangað til það verður 75 ára. Eitthvað kostar það og verður ekki gert ókeypis. Því sé ég ekki að verið sé að áætla fjármagn í þetta.

Varðandi hjúkrunarrýmin, þá er í áætluninni verið að tala um að það gætu verið í kringum 6.000 manns, ef þetta verður allt framreiknað, sem þyrftu á hjúkrunarrými að halda miðað við óbreyttar forsendur. Hugsanlega er verið að gera einhverjar breytingar og fara í meiri heimaþjónustu og því verða 2.000 manns utangarðs, alla vega hvað varðar hjúkrunarheimili. Því verður hlutfallsleg fækkun rýma á hjúkrunarheimilum ef þetta verður að veruleika. Í áætluninni eru líka óskýr skil ábyrgðar milli ríkis og sveitarfélaga til að mæta þörfum íbúa fyrir þjónustu. Maður spyr: Á að færa þetta yfir á sveitarfélögin? Ef ekki á að byggja hjúkrunarrými fyrir þennan hóp, eiga þá sveitarfélögin, vegna ágreinings við ríkið um hvort þetta sé heimahjúkrun eða félagsleg heimaþjónusta (Forseti hringir.) — á að skutla þessum pakka yfir á sveitarfélögin?