Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingheimi öllum fyrir umræðuna í gær og í dag sem hefur um margt verið áhugaverð. Sá háttur sem við höfum haft á undanfarin ár, að láta einstaka fagráðherra ræða sína málaflokka, skýra fyrirætlanir sínar, ræða um markmið og mælikvarða, hefur í flestum tilfellum gagnast okkur vel, ekki síst fyrir hv. fjárlaganefnd að fylgja eftir í sinni vinnu við nánari rýningu á áætluninni.

Fjármálaáætlun er umfangsmikið plagg, hartnær 500 síðna hlemmur sem við höfum spreytt okkur á síðustu misseri, ekki síst við fjárlaganefndarfólk. Við upphaf þessarar umræðu, þann 31. mars, hafði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson orð því hvort einfalda mætti þetta ferli með þeim hætti að fjármálaáætlun væri uppfærð árlega, einungis með þeim breytingum sem ættu sér stað á milli ára, í stað þess að vera unnin frá grunni ár hvert. Þessi sjónarmið get ég vel tekið undir og við í fjárlaganefnd höfum flest hver gert það enda er áætluninni ætlað að auka gagnsæi í ríkisfjármálum og gefa ríkisstjórnum hverju sinni tækifæri til að sýna á spilin, auka fyrirsjáanleika og auka stöðugleika í efnahagsmálum. Ég held að við getum flest verið sammála um að það þarf ekki endilega að gera það í svona löngu máli. Ég er sannfærð um að breytt fyrirkomulag, sem, eins og ég rakti hér áðan, gerði kannski einungis grein fyrir breytingunum á milli ára, gæti stuðlað að skilvirkari og betri áætlanagerð.

Í þessari nýútkomnu fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er lagður grunnur að áformum komandi ára. Það er öllum ljóst að efnahagsþrengingar síðustu missera og verðbólgan sem við stöndum frammi fyrir nú hefur þar mikil áhrif og ljóst er að áætlanagerðin tekur mið af þeim efnahagsforsendum sem við búum nú við. En það eru ekki einu sjónarmiðin.

Á meðan við fetum öngstrætið á milli aðhalds og aðgerða til að hemja þenslu í núverandi aðstæðum verðum við að standa vörð um velferðarmálin. Þar er mikilvægt að styðja við Seðlabankann í því verkefni að vinna á verðbólgunni, það er sömuleiðis mikilvægt að halda áfram að byggja upp samfélagið og samfélagslega innviði, og um leið þurfum við að gæta jafnvægis og stuðla að áframhaldandi jákvæðri þróun á afkomu ríkissjóðs. Við Vinstri græn höfum lagt á það höfuðáherslu að verja þau sem viðkvæmust eru gagnvart áhrifum verðbólgunnar. Í þessari fjármálaáætlun er lagt upp með að halda áfram á þeirri braut og meira að segja stigið enn fastar til jarðar. Í því tilliti verjum við mikilvæga grunnþjónustu um leið og við tryggjum afkomuöryggi þeirra hópa sem minna hafa á milli handanna. Þessi fingraför sjást ekki síst á því að útgjöld til velferðarmála eru sem fyrr umfangsmesti málaflokkurinn á gildistíma áætlunarinnar en alls renna hátt í 60% útgjalda á tímabilinu til heilbrigðis-, félags-, húsnæðis- og tryggingamála. Um er að ræða fjölda aðgerða sem sýna skýra forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þágu almennings. Hér má enn og aftur nefna eflingu barnabótakerfisins, auk þess sem stjórnvöld hafa verið að beita sér í húsnæðismálum með auknum framlögum — og ég verð að mótmæla því sem hér hefur komið fram, þar sem því er haldið fram að ekki sé staðið við samninga. Við þekkjum öll þá sögu, hún hefur margoft verði rakin hér, og fjármunirnir hafa einfaldlega ekki gengið út að öllu leyti og það er margt sem hefur orðið til þess, ég þarf ekki að rekja það hér. En við munum sannarlega ganga fram og uppfylla þann samning.

Á döfinni eru umfangsmiklar breytingar til einföldunar á greiðslukerfi almannatrygginga á árinu 2025 og von á frumvarpi þess efnis í haust. Einnig er um að ræða margvíslegar aðgerðir í málefnum aldraðs fólks og erum við nú með til umfjöllunar í þinginu aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk sem vonandi verður afgreidd fyrir sumarið. Eins og áður sagði eru heilbrigðismál stærsti staki útgjaldaflokkur ríkissjóðs og eru útgjöld til málaflokksins á annað þúsund milljarðar á gildistíma áætlunarinnar.

Fjöldi þjóðþrifamála er á dagskrá ríkisstjórnarinnar á komandi árum samkvæmt þessari áætlun, bæði hvað varðar styrkingu innviða og fjölda nýrra verkefna. Fæðuöryggi og loftslagsmál ásamt aukinni og fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu eru meðal áherslumála á málefnasviðum matvælaráðuneytis. Þar renna 2 milljarðar kr. í að hrinda af stað aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar á Íslandi og ég vona að almenningur geri sér grein fyrir hversu mikilvægt það er fyrir okkur hér á Íslandi. Framlög til eflingar ýmiss eftirlits og stjórnsýslu vegna landbúnaðar og fiskeldis vaxa svo um munar og sömu sögu er að segja um hafrannsóknir og eftirlit með fiskveiðum, en 3 milljarðar verða veittir í auknar hafrannsóknir. Við höfum talað mikið fyrir því, meiri hlutinn í fjárlaganefnd, að þetta sé löngu tímabært því að þetta skilar okkur væntanlega meiri arði þegar fram í sækir.

Þá stendur til að hækka veiðigjöld og gjöld á fiskeldi sem er mikilvægur liður í tekjuöflun ríkissjóðs á komandi árum, auk þess að vera mikið réttlætis- og sanngirnismál fyrir allan almenning að greitt sé fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum. En það er sömuleiðis mikilvægt að styrkja tekjuhlið ríkissjóðs í hvívetna þegar harðnar í ári, bæði til að verja velferðina en einnig til að greiða niður skuldir og búa í haginn fyrir ríkissjóð. Það tel ég mun farsælli leið en að leggjast í stórkostlegar aðhaldskröfur sem koma niður á almenningi. Auknar álögur á aflögufæra stórútgerð, hækkun gjalda vegna fiskeldis, aukin gjaldtaka í ferðaþjónustu og innheimta varaflugvallargjalds eru til marks um það.

Öflugt atvinnulíf sem skilar þjóðarbúinu auknum tekjum, ferðaþjónusta sem hefur endurheimt fyrri styrk í bland við rótgrónar atvinnugreinar á borð við sjávarútveg og nýjar og fjölbreyttar atvinnugreinar skila því að atvinnuleysi er lágt. Það er gleðiefni. Það er ekki hægt að segja sömu sögu víða í kringum okkur. Sömuleiðis gefur jákvæð þjóðhagsspá fullt tilefni til bjartsýni.

Virðulegi forseti. Það er mikið lán að hér á landi hafi á síðustu áratugum byggst upp nýsköpunarstarf sem greitt hefur veginn fyrir fjölda öflugra fyrirtækja í hinum ýmsu atvinnugreinum. Við höfum þannig farið frá því að treysta á eina undirstöðuatvinnugrein yfir í að fjölga styrkum stoðum í atvinnulífinu svo um munar. Í þessu samhengi má minna á að framlög til nýsköpunarfyrirtækja hækka um 2 milljarða á næsta ári. Það er mikilvægur hlekkur í öflugu stuðningsumhverfi nýsköpunar og við vitum að þar hafa verið stigin stór skref undanfarin ár. Til þess að halda úti samkeppnishæfu umhverfi fyrir nýsköpunargeirann þurfa úthlutanir að vera gagnsæjar og réttlátar. Það kom fram hér hjá hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í dag, þar sem hún ræddi m.a. þetta sjóðaumhverfi — hún gerði því skóna að fækkun sjóða og einfaldara fyrirkomulag styrkveitinga gæti aukið bæði yfirsýn og gagnsæi þeirra enda um gríðarlega marga sjóði að ræða, mig minnir að hún hafi nefnt eina 80, og dýra umsýslu sem vert er að fara vel yfir; ef það eru í kringum 800 milljónir þá held ég að það sé sannarlega eitthvað sem væri betur varið beint í nýsköpun en ekki í umsýslu.

Hvað varðar fjölgun stoða undir íslensku atvinnulífi verðum við að minnast á mikla aukningu í útflutningi í íslenskum hugverkaiðnaði eða um 17% að nafnvirði frá 2020 til 2022, en þar eru líka mikil sóknarfæri fyrir Ísland. Þetta er hluti af fjölbreyttara og betra hagkerfi sem heldur áfram að þróast í rétta átt. Áherslur stjórnvalda í stuðningi við þessa þróun birtast m.a. í aukinni opinberri fjárfestingu í skapandi greinum. Þar er lykilatriði að byggja upp samfélag vísinda, þekkingar, nýsköpunar og hugverkaiðnaðar með það að markmiði að hugvitið verði ein af stærstu útflutningsgreinum þjóðarinnar, en við þekkjum það frá nágrannalöndum okkar að þessar greinar geta vegið þungt í efnahagslífinu.

Áhersla stjórnvalda er m.a. á grænar tæknilausnir og hugverkaiðnað í þágu loftslagsmála sem og heilbrigðistækni. Um leið vil ég halda á lofti áhyggjum mínum af því hvert stuðningurinn rennur og vitna í fjármálaáætlun en þar segir, með leyfi forseta:

„Hlutfall kvenna á meðal frumkvöðla er lágt á Íslandi sem og öðrum Norðurlöndum og sýna niðurstöður greiningar KPMG fyrir Framvís – samtök engla og vísifjárfesta í nýsköpun að á árinu 2021 fengu kvenkyns teymi 2% fjármagns og blönduð teymi 53% fjármagns frá íslenskum vísisjóðum. Þegar litið er til umsókna um endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar eru karlar um 73% umsækjenda og flest nýsköpunarfyrirtæki …“

Í þessu þurfum við að gera gangskör og vinna þannig gegn kynjaskiptum vinnumarkaði. Ég lýsi miklum áhyggjum af þessari þróun og tel afar mikilvægt að bregðast við og rétta þennan kúrs.

Virðulegi forseti. Það er mikil óvissa í efnahagsmálum og það er mikil óvissa um það hversu miklu þarf að kosta til til að ná fram þeirri lækkun á verðbólgu sem við viljum öll sjá. Þeirri stefnumörkun sem hér er til umfjöllunar í opinberum fjármálum er til skemmri tíma ætlað að draga úr þenslu og verðbólguþrýstingi og styðja við peningastefnuna með því að auka aðhald, draga úr fjárfestingum, bæta afkomu ríkissjóðs en standa um leið vörð um velferðina.

Það er líka mikilvægt ef sá árangur næst á yfirstandandi ári að afgangur verði á frumjöfnuði ríkissjóðs enda styður það við það meginmarkmið fjármálastefnunnar að stöðva hækkun skuldahlutfalls hins opinbera um leið og við stefnum að heildarjöfnuði.

Það er ljóst að skiptar skoðanir eru um hvort nógu langt er gengið í aðhaldi eða hvort auka eigi enn frekar útgjöld og innheimta aukna skatta, það eru engin ný sannindi í því. En það er líka alveg ljóst að til að ná tökum á aðstæðum þurfa fleiri að koma að.

Virðulegi forseti. Við lok þessarar fyrri umræðu um þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun vil ég segja að fram undan er ærið verkefni í fjárlaganefnd, að fara vel yfir, að rýna og skoða, hafa síðan á því skoðun hvernig við erum að beita mælikvörðum og (Forseti hringir.) markmiðum og fara yfir áætlunina með umsagnaraðilum og vega og meta það sem þar kemur fram áður en við mætum í seinni umræðuna.