Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Hvernig sem á það er litið er skýrt samhengi milli þess að draga úr hallarekstri ríkisins og að verðbólga og vextir lækki. Þrátt fyrir þetta samhengi gerir fjármálaráðherra ekki það sem þarf. Ríkisstjórnin segir að verðbólga sé höfuðóvinurinn. Fólkið í landinu finnur fyrir því að matvara hækkar á milli búðarferða, hvernig húsnæðislánin bólgna og fólk hefur áhyggjur af heimilisbókhaldinu. Verðbólga hefur bein áhrif á afkomu og lífskjör. Þess vegna vill fólk að ríkisstjórnin geri það sem hún getur til að forða okkur frá þessum óvini og þess vegna er ótrúlegt að fjármálaáætlun er alveg laus við að birta raunverulegar aðgerðir eða raunverulegt plan um að reka þennan höfuðóvin burt.

Þessi gagnrýni á fullkomið afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar er ekki bara eitthvert raus í mér eða eitthvert raus í Viðreisn. Hvað segja aðrir sem til þekkja? Umsögn fjármálaráðs talar um lausung í fjármálum, segir að skynsamlegri ráðstöfun núna hefði verið að nýta tekjuauka ríkissjóðs til að bæta afkomuna í stað þess að auka bara útgjöld. Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur segir að það sé einfaldlega ekki verið að bregðast við stöðunni í dag heldur bara verið að tala um einhverjar mögulegar breytingar í framtíðinni. Félag atvinnurekenda segir að það hefði átt að ganga lengra í hagræðingarskyni. Samtök atvinnulífsins segja að það séu engar aðgerðir í fjármálaáætlun til að draga úr útgjöldum og vinna bug á verðbólgu. ASÍ segir að aðgerðirnar séu ekki nægilegar til að verja heimilin fyrir verðhækkunum. Allir þessir aðilar lýsa eftir aðgerðum gegn verðbólgu, allir sem einn, en í dag höfum við hlustað á forsætisráðherra, og áður á fjármálaráðherra, tala eins og hér sé bara enginn vandi. Og ég spyr: Getur verið að allir þessir aðilar sem ég var að vísa til séu að misskilja stöðuna? Getur verið að fjármálaráðherra sé einn um það að lesa fjármálaáætlunina rétt?

Fjármálaráðherra talar um mikilvægi þess að horfa á björtu hliðarnar og um góðar horfur. Þegar forsætisráðherra var spurð í dag hvers vegna eigi ekki að liðsinna heimilunum á þann hátt að flæma burt þennan höfuðóvin sem verðbólgan er þá talar hún um það, í andsvörum við mig, að hún vilji sterkt heilbrigðiskerfi, hendir út einhverjum frösum eins og valið standi á milli verðbólgu og heilbrigðisþjónustu — algjör firring. Það má kannski benda ríkisstjórninni á tvennt. Þessir valkostir forsætisráðherra í dag, „Vil ég verðbólgu eða heilbrigðisþjónustu?“, sýna okkur hvers vegna ríkisfjármálin eru svona lítið jarðtengd, ef þetta er sýnin á það hvaða valkostir eru í stöðunni. Síðan er það hitt, að það er bara alls ekki skilningur fólksins í landinu að þessi ríkisstjórn hafi eflt eða varið heilbrigðisþjónustuna, bara alls ekki.

Hallarekstur ríkissjóðs verður hins vegar áfram staðreynd, a.m.k. út árið 2027. Hallareksturinn var byrjaður fyrir heimsfaraldur, stóð auðvitað í heimsfaraldrinum, stendur enn og verður í mörg ár til viðbótar. Á vakt fjármálaráðherra hefur orðið ævintýraleg útgjaldaaukning sem hefur skilað mörghundruð milljarða króna halla. Og þessi halli stafar bara alls ekki af því að þessum fjármunum hafi verið ausið í heilbrigðisþjónustu fyrir fólkið í landinu. Ef við setjum þessa stóru mynd ríkisfjármála og verðbólgu í samhengi við daglegt líf fólks er staðan sirka þessi: Það er erfiðara en áður fyrir ungt fólk að eignast íbúð. Húsnæðislán eru mjög dýr. Greiðslumat er þyngra. Fólk á leigumarkaði býr við fáránlega erfiðar aðstæður. Ungt fólk og barnafjölskyldur eru í dag að taka á sig allar vaxtahækkanir af fullum þunga sem hefur þær afleiðingar að næstu árgangar munu ekki komast inn á húsnæðismarkaðinn. Fasteignamarkaðurinn og byggingamarkaðurinn eru á leiðinni í frost og þar með erum við farin að fýra upp í næstu fasteignabólu. Staðreyndin er sú að það er ekki jafnt gefið á Íslandi. Hér býr ein þjóð í krónuhagkerfi og svo er það hin þjóðin, fyrirtækin sem nota aðra gjaldmiðla en krónu, um 250 fyrirtæki, þar á meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem velja annan gjaldmiðil en krónuna, einfaldlega og skiljanlega vegna þess að krónan kostar of mikið og er of óútreiknanleg. Sífelldar vaxtahækkanir núna hafa þess vegna ekki áhrif á þessi fyrirtæki en mikil áhrif á venjulegt fólk í landinu með húsnæðislán og þessi fyrirtæki sem eftir standa inni í krónuhagkerfi; litlu og meðalstóru fyrirtækin.

Forseti. Í síðasta fjárlagafrumvarpi blasti við að fjármálaráðherra ætlaði ekki að berjast gegn verðbólgunni. Þvert á móti fór hann í það að hækka gjöld sem ýtti annars vegar undir meiri verðbólgu og jók útgjöld fólks. Viðreisn lagði þá mikla áherslu á að fjármálaráðherra ætti að berjast með Seðlabankanum gegn verðbólgu. Við lögðum fram nokkrar breytingartillögur, m.a. um að skuldir ríkisins yrðu lækkaðar um 20 milljarða, um fækkun ráðuneyta, um hækkun veiðigjalda og hækkun kolefnisgjalds. Allar voru þessar tillögur felldar. Fjárlögin enduðu í 120 milljarða mínus. Og þetta hefði ekki þurft að fara svona. Í nýrri fjármálaáætlun segir að vaxandi verðbólga kalli á aðhald í opinberum fjármálum en það eru engin augljós merki um neitt aðhald og það eru heldur engin merki um að það eigi að ráðast í tekjuöflun, aðra en þá að setja núna 1% skattahækkun á fyrirtækin. Það eru engin merki þess að sækja eigi tekjur í sjávarútvegi eða með gjaldtöku á ferðaþjónustu. Fjármálaáætlun talar um að veiðigjöld verði mögulega kannski hækkuð 2025, eftir tvö ár, og að sala á Íslandsbanka muni leiða til þess að skuldir lækki og vaxtakostnaður í leiðinni. En vandamálið er auðvitað að mikilvæg sala er í uppnámi vegna atriða sem snerta fjármálaráðherra sjálfan.

Frú forseti. Þegar efnahagsaðstæður breytast og þegar þarf að draga úr útgjöldum eins og núna er miklu auðveldara fyrir stjórnvöld að fara þá leið að slá einstaka fjárfestingarverkefnum á frest heldur en að fara í pólitískt erfiðar umbætur á rekstri. Það er það sem ríkisstjórnin hefur valið sér að gera, að forðast allt sem er erfitt fyrir þau sjálf en henda út eða fresta einstaka framkvæmdum og fjárfestingum. Ríkisstjórnin talar þess vegna núna um að hún ætli að standa vörð um heilbrigðiskerfið og verja heilbrigðiskerfið. En það er nákvæmlega ekkert ákall um það hjá neinum að fara í niðurskurð á heilbrigðisþjónustu eða löggæslu. Ég held að svona rant sé kannski sett fram til þess að fela getuleysið til að taka til í öðrum rekstri ríkisins. Við í Viðreisn viljum horfa á reksturinn hjá ríkinu sjálfu, hagræða þar sem tækifærin eru, en þetta aðhald er erfitt fyrir ráðherrana og það krefst vinnu. Og það er stórt vandamál að útgjaldahliðin er ekki snert. Fjármálaráðherra þarf að draga úr umsvifum ríkisins núna, horfa á yfirbygginguna. Þetta verður hann að gera ef hann vill hjálpa fólkinu í landinu að ná niður verðbólgu. En í staðinn er talað um að þau ætli að verja heilbrigðiskerfið. Ég spyr: Fyrir hverju? Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf í dag fyrst og fremst á því að halda að vera varið fyrir þessari ríkisstjórn.

Undanfarið hefur fjármálaráðherra aðallega talað um góða stöðu Íslands, fundist tal um verðbólgu og háa vexti ómaklegt, en fá Evrópuríki eru með hærra vaxtahlutfall og hærri vaxtakostnað en Ísland. Ríkið er í sömu stöðu og heimilin í landinu, það er vaxtakostnaðurinn sem er að sprengja allt. Það er ekkert talað um hvernig eigi að flýta því að greiða niður skuldir og lækka háan vaxtakostnað íslenska ríkisins, sem myndi hjálpa við að ná niður verðbólgu. Að tala bara um skuldahlutfall en ekki um kostnaðinn af skuldum segir auðvitað aldrei sögunni alla. Þegar við spyrjum þessarar einföldu spurningar, „Hvers vegna þarf hærri vexti á Íslandi, stundum margfalt hærri vexti gegn svipaðri verðbólgu og annars staðar?“, er svarið alltaf: Vegna þess að hér er svo mikill hagvöxtur. En þetta er rangt. Hagvöxtur á Íslandi er minni á mann en í Evrópu og það verður auðvitað að skoða hagvöxtinn með tilliti til þess. Þegar hagvöxtur eykst vegna innflutts vinnuafls eða fólksfjölgunar þá er einfaldlega fleiri munna að metta. Fólk fær ekki meira, taflan frá OECD sýnir þetta svart á hvítu. Við erum eftirbátar flestra þjóða þegar kemur að hagvexti. Þetta er áhyggjuefni. Það er líka áhyggjuefni hversu lítil framleiðni er hér á landi og hversu mikill viðskiptahallinn er. Um þetta er heldur ekki rætt.

Óbreytt ástand í ríkisfjármálum eru vondar fréttir fyrir þjóðina en afleiðing þess að vera með ríkisstjórn sem getur ekki tekið ákvarðanir. Þjóðin verður þess vegna bara að halda áfram að taka á sig háa verðbólgu og vexti. Og núna fá fyrirtækin skattahækkun á sig. Það kristallast pólitík í þessu en vandamálið hér er að ríkisstjórnin er ekki mynduð utan um pólitík. Það þarf pólitíska hugmyndafræði um útgjöld, tekjur og heildarafkomu en hér á að reka ríkið með halla í áratug, (Forseti hringir.) algjörlega óháð efnahagsaðstæðum. Aftur erum við í sömu stöðu og þegar fjármálaráðherra lagði fram síðasta fjárlagafrumvarp. (Forseti hringir.) Varnaðarorðin heyrðust sannarlega þá líka. Og ég spyr: Skyldi ríkisstjórnin hlusta í þetta sinn?