Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

lax- og silungsveiði.

957. mál
[21:57]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu minni átti þetta frumvarp sér tiltekinn aðdraganda. Það er kannski rétt að geta þess að það kemur fram í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, um áform um lagasetninguna, að stofnunin telur jákvætt að stefnt sé að þessari lagabreytingu vegna þess að náttúrufræðingar og líffræðingar þar telji ástæðu til að hafa áhyggjur af aukinni útbreiðslu hnúðlaxins og að nauðsynlegt sé að áhrif af tilvist og aukningu tegundarinnar á líffræðilega fjölbreytni ferskvatns séu könnuð til hlítar. Þess vegna er mikilvægt að núverandi laga- og regluumhverfi komi ekki beinlínis í veg fyrir nauðsynlegar rannsóknir á hnúðlaxi eða öðrum framandi tegundum í fersku vatni sem og aðgerðir til að bregðast við mögulegum vandamálum sem stafa af aukinni útbreiðslu þeirra.

Samkvæmt umsögninni kemur líka fram að mikilvægt sé að ákvæði laga séu skýr um það hvaða fleiri framandi tegundir það á við um til að unnt sé að stemma stigu við útbreiðslu eða a.m.k. að kanna og greina þau vandamál sem stafa af aukinni útbreiðslu sem þessari.

Það er líka áhugavert í þessu samhengi að geta þess að frumvarpið var kynnt í samráðsgátt. Þar bárust umsagnir frá Náttúrufræðistofnun, tveimur félögum og tveimur einstaklingum sem öll töldu þetta jákvæða tillögu. Athygli helstu hagsmunaaðila var vakin á því að frumvarpið væri þar til kynningar og engar aðrar umsagnir bárust um málið. Umsagnaraðilar hafa því verið sammála um að þessi lagasetning hér væri til bóta.