Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

lax- og silungsveiði.

957. mál
[21:59]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra taldi upp ágæta aðila sem hún leitaði ráðgjafar hjá og það er gott mál. En hún taldi ekki upp einn aðila sem stendur henni nú mjög nærri og er einn fremsti sérfræðingur þjóðarinnar í fiskifræði ferskvatna og öðrum fiskum og það er hv. þm. Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar. Leitaði hæstv. ráðherra til þingmannsins varðandi skoðun á þessu máli? Ég get glatt kvótaglaðan ráðherra, sem vill helst kvótasetja allt kvikt, með því að geta þess að þessi ágæti fiskur veiðist í sjó. Mig langar að spyrja hvort hún sé eitthvað farin að hugsa til þess, ef stofninn vex, að grípa tækifærið og leita allra ráða til að kvótasetja fiskinn í ljósi gjörbreyttra viðhorfa hennar til mála nú á síðustu misserum hvað varðar kvótasetningu. (Gripið fram í: Ómálefnalegt.)

Frú forseti. Er hægt að hafa einn fund í salnum? Ég er bara að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist kvótasetja nýbúa sem er kominn hér inn í ár landsins. Er eitthvað ómálefnalegt við það? Svona ef stofninn myndi vaxa og verða að nytjafiski.