Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[22:33]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er grátbroslegt frumvarp vegna þess að hér eru Vinstri grænir að leggja fram frumvarp sem þeir lögðust alfarið gegn á síðasta kjörtímabili — alfarið. Og hvað felur þetta frumvarp í sér? Það felur ekki í sér neina almannahagsmuni, enda er ekki rætt um þá í greinargerðinni með frumvarpinu. Það er talað eitthvað um jafnræði þeirra sem fá veiðiheimildir, bara það mengi, en það er ekkert talað um almannahagsmuni, enda eru engir almannahagsmunir hér undir. Hverjir eru þeir? Þeir eru bara ekki til staðar. Hér er um einkavæðingu að ræða. Ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra: Hvað breyttist? Hvað breyttist? Hvers vegna vill hún núna einkavæða grásleppuna en á síðasta kjörtímabili þá barðist hún á hæl og hnakka gegn því? Var það eitthvað sem gerðist í ráðuneytinu? Fékk hún einhverja vitrun þar? Svo er maður hér í þingsalnum í dag og hefur fylgst með og þá rauk hv. þingmaður Vinstri grænna upp til handa og fóta vegna einkavæðingar Reykjavíkurborgar á almannaþjónustu. En svo kemur seinna um kvöldið hæstv. ráðherra Vinstri grænna og hún er algerlega búin að snúa við blaðinu, vildi alls ekki einkavæða hér grásleppuna á síðasta kjörtímabili en núna vill hún ólm einkavæða grásleppuna. Hvað er að Vinstri grænum, hæstv. ráðherra?

Forseti. Það er eitthvað mikið og skrýtið í gangi. Ég held að hæstv. ráðherra verði að gera hreint fyrir sínum dyrum vegna þess að almennir flokksmenn Vinstri grænna eru eitt spurningarmerki og eru jafnvel farnir að hafa samband við mig hér og spyrja hvað sé í gangi innan herbúða Vinstri grænna.