Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[23:20]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Þetta er sorglegur dagur að mörgu leyti fyrir atvinnufrelsi í landinu og það er líka sorgardagur í rauninni fyrir Vinstri græn í þessu máli og hvað varðar stjórn fiskveiða. Við erum nýbúin að fá könnun í andlitið sem segir okkur að 70% þjóðarinnar telji að kvótakerfið sé spillt. Í stað þess að taka þá umræðu hreinskilnislega og vinda ofan af þessu þá er miklu frekar farin sú leið að herða á spillingunni, vil ég telja það, herða á kerfinu. Það finnst mér vera stórundarlegt val en látum það vera.

Það sem ég sakna hér í dag er að litlu frelsisálfarnir í Sjálfstæðisflokknum taki til máls og standi með okkur í Flokki fólksins og Pírötum gegn þessu frumvarpi vegna þess að það er verið að leggja hér á óþarfa atvinnuhöft, algerlega óþörf. Mér finnst að þeir ættu að láta sjá sig og taka til máls í umræðu sem snýr að atvinnufrelsinu en ekki einskorða sitt frelsi við brennivín í búðir eða að lækka áfengiskaupaaldurinn og allt það. Þetta tel ég vera miklu veglegra málefni að berjast fyrir en það.

Síðan sakna ég þess að okkar ágætu vinir í Framsóknarflokknum láti sjá sig því það er alveg óumdeilt að þetta mál snertir hinar dreifðu byggðir. Einhvern veginn hafa þeir komið því inn í kollinn á mörgum að þeir séu talsmenn hinna dreifðu byggða þó svo að þar sem þeir ráða og hafa ráðið hafi frekar hallað á ógæfuhliðina en hitt. Þetta er einmitt mál sem snýr atvinnufrelsi og með því að samþykkja þetta frumvarp er verið að takmarka möguleika þessara byggða, unga fólksins í byggðunum, á að hefja vinnu og taka til hendinni, þannig að ég sakna þeirra.

En furðulegast af öllu er að horfa upp á Vinstri græn, vini mína í Vinstri grænum. Mér finnst leiðinlegt að sjá á hvaða vegferð sá ágæti flokkur er, að hann sé kominn hér í að einkavæða og herða á kvótakerfinu í stað þess að fara þá leið að losa um þá hnúta sem er búið að binda. Nei, nei, það er miklu frekar farin sú leið að herða og ég vil spyrja: Er eitthvað í stefnu flokksins sem varð þess valdandi? Nú hef ég lesið bæði samþykktir nýs flokksþings sem fór fram í síðasta mánuði og þess sem var tveimur árum þar á undan. Þar er ekkert sem bendir til þess að það sé vilji flokksmanna að fara þessa leið og einkavæða grásleppuna. Það er ekki heldur að sjá að það hafi verið stefna þingflokksins á síðasta kjörtímabili en nú erum við allt í einu komin þá leið og auðvitað eru þá þingmenn sem voru hér á síðasta kjörtímabili alveg undrandi.

Hvað gerðist? Hvers vegna er flokkurinn kominn í þessa stöðu? Er það samveran með Sjálfstæðisflokknum sem hefur orðið til þess? Eða hvað er það? Það er ekkert sem kom fram hér í ræðu hæstv. ráðherra sem benti til þess að það væru einhverjir almannahagsmunir í veði og einhver þörf á þessu. Það var eitthvað talað um að það myndi minnka meðafla. Það er alveg fráleitt, frú forseti. Það er fráleitt að einhver hnísa flækist síður í net ef það er komið með nýtt kerfi, framseljanlegt einkavætt kerfi. Getur einhver í þingflokki Vinstri grænna komið með einhverja skýringu á því hvers vegna þetta ætti að leiða til minni meðafla? Það eru leiðir til þess að minnka meðafla og gera þessa atvinnugrein arðvænlegri. Auðvitað hefði verið skynsamlegast að opna þá viðræður við Landssamband smábátaeigenda en það er eins og ráðherra vilji bara ekkert við þá fulltrúa greinarinnar ræða. Þá hefði verið hægt að komast hjá þessari vitleysu sem er í gangi og einnig þá að koma óorði á flokkinn.

Frú forseti. Það sem kom fram í ræðu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur varðandi Verbúðina fékk mig til að hugsa hvort við værum að skrifa hér enn einn kafla í kvöld í Verbúðinni, að nú væri róttæki vinstri flokkurinn, umhverfisflokkurinn, kominn í þá vegferð að einkavæða enn eina fisktegund, og það bara á einhverjum furðulegum forsendum, einhverjum misskilningi, tel ég vera. Misskilningurinn er m.a. að það virðist ekki vera rætt við nokkurn mann og ég fékk ekki heldur á hreint frá hæstv. ráðherra hvort hún hefði rætt við helsta sérfræðing þjóðarinnar í grásleppu sem er að finna í þingflokknum sjálfum. Var rætt við hann og er hann samþykkur þessu frumvarpi? Ég leyfi ég mér að efast um að svo sé vegna þess að það er það götótt og hvílir á svo veikum grunni að það heldur varla vatni. Það er í rauninni alveg furðulegt að bera það á borð.

Auðvitað eru einhverjir í samfélaginu sem hafa yfir einhverri aflareynslu að ráða sem vilja fá gefins hjá ráðherranum og hún virðist hafa bara hlustað á þá en út frá almannahagsmunum og líffræðilega er hér verið að nota mjög hæpnar forsendur. Jú, hæstv. ráðherra, ef marka má orð hans, sem ég hef hlýtt á, virðist trúa og játast undir allt sem kemur frá Hafró. Ég ítreka það hér úr þessum ræðustóli að það er margt gott sem kemur frá Hafró, en það er ekki einhver sannleikur heldur eru vísindi þannig að það á að efast og togast á um hlutina. Það er mjög hættuleg þróun sem hefur orðið á síðustu árum, það hefur orðið ákveðin einangrun á þeim sjónarmiðum og ráðgjöf og þau sem hafa verið svona andstæð — í staðinn fyrir að láta þau takast á þá hafa þau miklu frekar verið blásin út af borðinu.

Ég vil nú gera eitt hér, og ég vil að það sé tekið eftir því, ég ætla að hrósa hæstv. ráðherra fyrir eitt. Það má hún eiga að hún tók á fundinum í Auðlindinni okkar í vikunni inn gagnrýni á Hafró. Vissulega hefði mátt takast betur á þar um þau sjónarmið sem þar voru uppi og gefa því lengri tíma en það er þá leið fram á veginn. En þessi ráðgjöf sem hún ætlar að úthluta veiðiheimildum út á er mjög vafasöm, bæði aðferðafræðilega þar sem mælingar við botn eru notaðar til að meta stofnstærð fisks sem heldur sig að mestu í yfirborðinu. Það er beinlínis súrrealískt að ætla að gera það. Ráðgjöfin styðst við togararall, sem er þá stofnmæling botnfiska, til að mæla uppsjávarfiskinn grásleppu. Það er rétt að taka það fram að vegna þess að Hafró segir að mælingin sé ónákvæm þá taka þeir mælingu frá árinu áður til að leiðrétta mælingu ársins og búa til eitthvert meðaltal, 70%/30%. Það er alveg ljóst að þetta er ónákvæmt og þarf miklu frekar að skoða. Að ætla að úthluta framseljanlegum verðmætum á þessum forsendum er í rauninni óborganleg vitleysa líffræðilega. Líffræðilegar forsendur ráðgjafarinnar eru bara ekki til staðar. Ég hef lagt fram fyrirspurn í þinginu einmitt sem snýr bæði að líffræðinni og því sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom inn á, það eru þessi byggðasjónarmið. Ég tel mjög mikilvægt að þeim sé svarað og að Byggðastofnun fái þetta mál til umsagnar. Ég sé að hæstv. ráðherra er skemmt yfir því. Þetta er alvörumál, frú forseti. Það er alvörumál að fara að skerða enn möguleika dreifðra byggða að óþörfu og gera það hér á þessum forsendum. Líffræðilegu forsendurnar eru mjög takmarkaðar og það hefur ekkert komið fram hvort stór hrygningarstofn skili mikilli nýliðun seinna. Ég hef ekki séð það og ég hef spurst fyrir hjá Biopol og víðar og meira að segja hjá einum helsta sérfræðingi í grásleppurannsóknum, vísindamanninum Bjarna Jónssyni. Það hefur ekki komið neitt þar fram.

Ég tel að menn verði að staldra hérna við. Áhrifamenn í flokknum, og þá á ég ekki bara við hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur heldur líka leiðtoga Vinstri grænna í Skagafirði, hafa ritað greinar þar sem þeir hafa varað við og bent á að þetta geti einfaldlega raskað tilveru smábátaútgerðar. Ég held að menn verði að hugsa þetta betur og einfaldlega skoða þetta upp á nýtt, þingflokkur Vinstri grænna. Það fer auðvitað ekkert saman að vera að flytja frumvarp um að auka félagslega þáttinn í fiskveiðistjórnarkerfinu úr 5,3% í 8,3% og vera síðan hér að þvinga fram grásleppufrumvarp og einkavæðingu og koma í veg fyrir jafnræði um að nýta auðlindir landsins hér á vordögum. Það er eitthvað sem ég tel að Vinstri græn þurfi að skýra nánar.

Svo er rétt að huga að því að þetta er algjör óþarfi. Ef hæstv. ráðherra telur að það verði að fylgja ráðgjöfinni upp á punkt og prik þá er mjög auðvelt að fækka eða fjölga dögunum í byrjun vertíðar þegar menn sjá hvert stefnir. Ef það stefnir í að ráðgjöfin náist á örfáum vikum og þannig að það gangi ekki á að allir geti reynt sig og hafi einhvern sveigjanleika, eins ef bátar bila, þá er kannski allt í lagi að vera þar með sveigjanleika gagnvart þeim smáu í greininni og að Fiskistofa taki þau sjónarmið gild og leyfi mönnum þá að draga upp netin og halda þá áfram og nýta sína daga seinna. Það er hægt, hæstv. ráðherra, að vera með sveigjanleika, einnig gagnvart þeim smáa eins og þeim stóra. Það er eitthvað sem mætti komast framar í forgangsröðina. Eins og ég segi, þetta er mjög auðvelt.

Ég ætla að nota þessar fáu mínútur sem eftir eru til að gera þá tillögu að þetta mál verði skoðað upp á nýtt og skoðuð þá líka sú leið, í stað þess að fara þessa leið, að einkavæða og gera það framseljanlegt, með þeim miklu hörmungum sem það mun að öllum líkindum leiða af sér fyrir fámennar byggðir — þá er auðvelt að fara aðra leið, að feta þá leið að gera grásleppuveiðar arðvænlegri þannig að menn fái að fénýta meðafla og að menn séu ekki settir í þá stöðu vegna þröngs VS-afla sem má landa utan kvóta, að menn neyðist þá til að velja á milli þess að borga með sér í veiðiferðinni eða þá að henda. Ég held að það sé mjög auðvelt með sveigjanleika gagnvart þeim smáa að gera þetta að arðvænlegri veiðum með því að menn leyfi einfaldlega grásleppusjómönnum að fénýta meðafla. Þá væru menn ekki að standa í því að vera hér í einhverjum kostnaðarsömum njósnaaðgerðum gagnvart vinnandi fólki, vera hér með dróna á lofti og virkt veiðieftirlit með kíkjum og ég veit ekki hvað. Um leið og menn hafa ávinning af því að koma með fiskinn í landið þá mun sá afli skila sér. Þessi njósnastarfsemi, sem maður sér jafnvel að eigi að auka í fjármálaáætlun, er óþarfi. Það á miklu frekar að búa til sveigjanleika og ég skora á Vinstri græn að skoða þetta mál upp á nýtt með það fyrir augum að gera þessar veiðar arðvænlegri og sveigjanlegri þannig að menn komist hjá þessum óþarfa höftum og að draga flokkinn algerlega niður í svaðið.