136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræddum þetta mál nokkuð í gær, frumvarp um breyting á lögum um virðisaukaskatt, og mér finnst þetta mjög jákvætt mál. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt við þær aðstæður sem nú eru að horfa dálítið öðruvísi á hlutina en við höfum gert. Þetta er tímabundin ráðstöfun og maður vonar að hún beri þann árangur að hleypa einhverju lífi í byggingarmarkaðinn og atvinnulífið. Staðan t.d. hjá arkitektum og verkfræðingum, staðan á þeim markaði er skelfileg, hreint út sagt skelfileg og ég held að það sé mikið til vinnandi að hleypa lífi í þær atvinnugreinar. Ég segi því enn og aftur að ég lýsi ánægju minni með þetta mál.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Gunnar Svavarsson vegna þess að hann ræddi í gær töluvert um samkeppnissjónarmið á verkstæðum og fleira og ég skildi það einhvern veginn svo að málið mundi fara aftur í nefnd á milli umræðna þar sem þetta yrði tekið sérstaklega fyrir, er möguleiki á að víkka þetta frekar út gagnvart þeim verkefnum sem unnin eru á verkstæðum vegna þess að það hefur breyst mjög mikið hvernig unnið er á byggingarstað? Margt er núna unnið annars staðar og þegar búið er að taka inn hönnuðina, sem vinna t.d. annars staðar, þá veltir maður fyrir sér verkum eins og t.d. gluggum og slíkum hlutum. Þar sem ekki varð af því að málið væri tekið inn í nefndina aftur og við erum væntanlega að afgreiða það á þeim grunni sem hér er, eru einhver áform af hálfu hv. þingmanns eða annarra í hv. efnahags- og skattanefnd að grípa til frekari aðgerða á þessu sviði til að bregðast við þessu eða eru þetta meira almennar hugleiðingar um málið? Eiga menn von á að þetta leiði til einhvers annars, er eitthvað meira í farvatninu?