136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum í 3. umr. frumvarp til laga um virðisaukaskatt og eins og ég gat um í gær er þetta afskaplega gott mál og ég vil síst af öllu tefja framgang þess. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Hins vegar er líka mikilvægt að við ræðum ýmsa þætti málsins sem þurfa að koma fram.

Hv. þm. Gunnar Svavarsson gat um það áðan að hugsanlega ætti að víkka út frumvarpið og ég tek undir það. Þetta var rætt í nefndinni og þar komu fram upplýsingar um að byggingariðnaðurinn er vægast sagt í lamasessi. Þar er ekkert að gerast, það koma engar tekjur af honum í virðisaukaskatti o.s.frv. Þá er spurningin hvort menn taki á honum stóra sínum og láti alla vinnu í byggingariðnaðinum vera virðisaukaskattsfrjálsa þar sem hann gefur hvort sem er engar tekjur og þetta mundi þá verða ákveðinn hvati til að setja hann í gang tímabundið. Ég mundi gjarnan vilja skoða það en ég veit náttúrlega að þetta mál er komið það langt að það verður ekki gert. Það er þá spurningin um að næsta þing, strax að loknum kosningum, taki sig til og geri allan byggingariðnaðinn virðisaukaskattsfrjálsan og sjái til hvort þessi iðnaður komist ekki úr þeim lamasessi sem hann situr í. Þetta mundi ég vilja skoða. Þetta var reyndar rætt í nefndinni en menn gátu ekki upplýst um það hve tekjutap ríkisins yrði mikið eða hvað þetta væri víðtækt.

Hér er komin fram breytingartillaga frá hv. þingmönnum Árna M. Mathiesen og Gunnari Svavarssyni sem víkkar út þjónustu arkitekta og verkfræðinga og slíkra, að hún sé virðisaukaskattskyld sem ég held að sé af hinu góða og nálgast í rauninni það sem hv. þingmaður nefndi, að gera bara allan iðnaðinn virðisaukaskattsfrjálsan það tímabil sem við erum að tala um. Svo líður þetta að sjálfsögðu hjá og iðnaðurinn fer í gang og þá þarf ekki svona hvata. Eins og ég nefndi í ræðu í gær er það náttúrlega algert brot á öllum mínum prinsippum um skattlagningu að vera með svona sértækar aðgerðir og við lendum í heilmiklum vandamálum með samkeppni, vandamálum með aðgreiningu o.s.frv. eins og hér hefur verið rætt, bæði í gær og í dag.

Ég ætla að koma inn á einn þátt sem mér finnst lítið hafa verið ræddur og hann tengist eiginlega máli, herra forseti, sem við ræddum í gær um ohf.-félögin, að Alþingi er mjög duglegt að setja lög um þetta og hitt en það fer minna fyrir því að það sé kynnt úti í þjóðfélaginu hvernig lögin virka. Það kom í ljós í gær að fjármálaráðherra sem fer með hlutafé í þessum bönkum t.d. hafði ekki áttað sig á því að þetta væru hugsanlega ohf.-félög, opinber hlutafélög þar sem ríkið á þau eitt og þar af leiðandi ættu við alls konar ákvæði um jafnan fjölda kynja í stjórnum, aðgang fréttamanna og kjörinna fulltrúa að aðalfundum sem þar með yrðu ólöglegir ef ekki er farið að lögum og býður heim alls konar lagaóvissu. Það er ekki nóg að Alþingi setji lög heldur þurfa menn að átta sig á því að lögin hafi verið sett og það þarf að kynna þau mjög víða. Þetta hefur verið ansi mikil brotalöm í stjórnkerfinu, þ.e. að kynna lög. Og það sem ég óttast með þau lög sem við erum að setja núna er að þeim er ætlað að örva atvinnulífið, byggingariðnaðinn, og ef fólk ekki veit af því að þetta sé orðið skattfrjálst gerist að sjálfsögðu ekki neitt.

Það sem ég ætlaði að gera ef einhver úr hæstv. ríkisstjórn hefði verið viðstaddur var að skora á hann að beita sér fyrir miklu kynningarátaki um að þessi lög séu komin, þannig að hinn almenni húseigandi, maður úti á sviðinu sem vinnur sína vinnu og fylgist kannski ekki svo grannt með umræðum á Alþingi, fái upplýsingar um að núna þurfi hann ekki að borga virðisaukaskatt af viðgerðum á þakinu eða skipti á gólfefnum eða annað slíkt sem hann hefur beðið með í mörg ár, að gera við gluggann sem brotnaði fyrir þremur árum eða eitthvað svoleiðis, af því að hann hefur ekki náð í iðnaðarmann. Núna er orðin allt önnur staða. Hann getur tiltölulega auðveldlega fengið iðnaðarmann til að vinna verkið og það er búið að fella niður virðisaukaskattinn. Ég skora á húseigendur sem heyra mál mitt að fara í gang og fara í framkvæmdir. Það er þjóðhagslega mjög hagkvæmt að fara í framkvæmdir sem veita vinnu og koma í veg fyrir atvinnuleysi. Nú ættu allir húseigendur, umráðamenn eigna eða sumarbústaða o.s.frv. að fara í gang og fara í alls konar viðhald sem á Íslandi hefur því miður beðið ansi mikið út af þeirri þenslu sem var í byggingariðnaðinum þar sem ekki var hægt að fá neitt fólk til að vinna. Nú er það alveg gjörbreytt. Þetta er eitthvað sem hæstv. ríkisstjórn þyrfti að gera, að fara í kynningarátak á því að lögum hafi verið breytt og að þessi staða gildi út árið 2010 þannig að menn átti sig á því.

Þetta er eitt af því sem ég vildi nefna í þessari umræðu en ég ætla ekki að tefja hana frekar. Ég held að það sé mjög brýnt að þetta mál nái fram að ganga og ætla að lýsa því yfir í lokin að ég fellst á þessa breytingartillögu og mun samþykkja hana með glöðu geði. Ég hefði gjarnan viljað sjá hana ganga töluvert lengra vegna þess að þessi iðnaður er meira og minna í lamasessi.