138. löggjafarþing — 96. fundur,  22. mars 2010.

kjaramál flugvirkja.

483. mál
[16:20]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við höldum hér áfram með umræðu um lagasetningu sem bannar verkföll starfsstéttar. Eins og komið hefur fram eru verkföll aldrei af meinalausu og aldrei af hinu góða. Vissulega er það svo eins og komið hefur fram að það eru mjög margir sem munu finna illilega fyrir áhrifum verktalls flugvirkja hjá Icelandair. Það var athyglisvert að á fundi samninganefndar áðan komu flugvirkjar fyrir nefndina og sögðu: „Við vorum með lausa samninga frá því í október. Við höfum reynt að ná samningum frá því í byrjun nóvember við félagið. Það hefur ekki tekist. Við viljum ekki fara aftur með nýjan samning fyrir félagið sem við vitum að verður felldur, það þýðir ný verkfallsheimild, það þýðir að kjaradeilan dregst inn í sumarið. Við viljum ekki valda fyrirtækinu tjóni á háannatíma þess.“ Þetta sagði maður sem er búinn að vinna hjá fyrirtækinu að mig minnir hann hafi sagt í 43 ár. „Okkur þykir vænt um félagið okkar og við viljum ekki valda því tjóni.“ Það er m.a. annars ástæðan fyrir tímasetningunni á þessu verkfalli, þannig að því sé haldið til haga.

Hér er verið að gera grófa aðför að réttindum launafólks. Það er verið að gera hér grófa aðför að stöðugleikasáttmálanum. Ef það er rétt sem ég var að heyra hér á göngunum áðan að búið sé að ákveða það að taka skötuselsfrumvarpið af dagskrá vegna þess að Samtök atvinnulísins hafa hótað að rifta stöðugleikasáttmálanum ef það mál fer í gegn, er náttúrlega alveg greinilegt að þessi ríkisstjórn er ekki hér að gæta almannahagsmuna eins og hún segist vera að gera í þessu máli. Hún er bara eingöngu að gæta sérhagsmuna.

Það var mikið talað um almannahagsmuni á fundi samninganefndar og vissulega eru hér almannahagsmunir í húfi, miklir almannahagsmunir. En það er ekki hér frekar en fyrri daginn af hálfu ríkisstjórnarinnar verið að gæta almannahagsmuna. Almannahagsmunir eru þeir að heimilunum er hjálpað, að fólki sé hjálpað af hnjánum og á fæturna aftur eftir þetta hrun. Það er ekki verið að því, heldur eru hér hagsmunir fjármálafyrirtækja og banka látnir ganga fyrir. Það er endalaust verið að kreista hverja einustu krónu sem hægt er út úr almenningi, út úr launafólki. Þegar það grípur til þeirra einu vopna sem það hefur, kemur ríkisvaldið og tekur þau af þeim og segir svo í nefndaráliti: „Við leggjum til að deilendur haldi áfram og reyni að ná samkomulagi.“

Það var greinilegt á fundi samninganefndar að nefndarmenn hafa ekki mikla hugmynd um út á hvað kjaradeilur ganga. Þú semur ekki í kjaradeilu þegar þú ert búinn að svipta annan deiluaðilann sínu aðalvopni, það bara er ekki svoleiðis. Það eru fyrirtækjaeigendurnir sem hlæja alla leiðina í bankann þegar búið er að gera það. Það er þannig sem ríkisstjórnin stendur að þessu máli. Það er búið að svipta annan deiluaðilann sínu eina vopni og nefndarmenn samgöngunefndar reyna að breiða svolítið yfir það með hjákátlegu orðalagi í nefndaráliti.

Ég hef nefnt það áður og ég ætla að endurtaka það að hér á árum fyrr voru aldrei sett lög á kjaradeilur nema brýnir öryggishagsmunir væru í húfi. Það er verið að tala hér um þúsundir starfa og almannahagsmuni. Hér er veirð að tala um eitt fyrirtæki. Ef ferðaþjónustan vill flytja fólk til landsins, fær hún einfaldlega til þess önnur flugfélög, það er ekkert flóknara en það. Það er, nota bene, eitt flugfélag í fullum rekstri milli Íslands og útlanda. Ekki það að ég sé að gera lítið úr áhrifum verkfallsins, en þessi rök halda einfaldlega ekki heldur. Það eru peningahagsmunir fyrirtækis sem eru hér í húfi og alveg eins og sérhagsmunirnir sem valda því að skötuselsmálið er tekið af dagskrá, eru látnir ganga fyrir, eru hér hagsmunir eins fyrirtækis látnir ganga fyrir.

Það verður að virða það við samgöngunefnd, og það var áhugaverður sá fundur, að hún gerir sér fyllilega grein fyrir alvöru málsins og meðferð málsins í nefndinni var vönduð. Menn höfðu greinilega mikinn áhuga á að þetta mál yrði leyst. Mönnum var ekkert glatt í geði með það að vera að setja hér lög um bann við verkfalli, en menn gera það engu að síður. Eitt af því sem gerir það e.t.v. að verkum að málið er afgreitt með þessum hætti er að það er verið að keyra þetta með miklum hraði í gegnum þingið. Það er verið að keyra það í gegn með afbrigðum sem við höfum alla tíð hafnað að yrðu notuð og annaðhvort setið hjá eða greitt atkvæði gegn, vegna þess að við teljum að mál séu ekki nægilega vel unnin ef þingið þarf að afgreiða þau með slíkum hætti.

Að afgreiða mál með lagasetningu á örfáum klukkutímum er að mínu viti óþekkt í nokkru öðru þingi. Mér finnst þetta bara stórundarleg aðferð við ákvarðanatöku. Stéttarfélagið sjálft í þessu máli eins og kom fram er búið að vera með standa í viðræðum í fimm mánuði. Þessir samningar sem þeir voru að fara fram á eru sambærilegur við þá sem voru gerðir við t.d. Air Atlanta og mitt mat er eftir þennan fund í samninganefnd að þeir hefðu náð saman mjög fljótlega í verkfalli, ef þeir hefðu einfaldlega haft örlítið meiri tíma.

Ég er á móti þessari lagasetningu af þessari grundvallarástæðu að það á ekki að svipta fólk verkfallsrétti. Það er búið að svipta hér fólk eigum sínum í stórum stíl. Það er verið að svipta það réttinum til þess að ganga í burtu frá eigum sínum án þess að vera hundelt árum saman af kröfuhöfum. Það er verið að svipta hér almenning öllum þeim grundvallarmannréttindum sem eru til staðar í öllum öðrum vestrænum lýðræðisríkjum. Nú er verið að svipta fólkið sem er að reyna að ná rétti sínum til baka, verkfallsréttinum líka.

Það er náttúrlega hægt að ganga miklu lengra í þessum stjórnunaraðferðum ef menn vilja, það hefur verið gert áður víða um heim, en þetta eru ekki fallegar aðferðir. Þetta eru ekki góðar aðferðir og þessar aðferðir eru ekki vænlegar til árangurs til að skapa frið í samfélaginu. Þetta er ekkert til að státa sig af. Ég beini því til þingmanna að leggja það til hér milli 2. og 3. umr. að málinu verði vísað til félagsmálanefndar m.a. til umsagnar, því félagsmálanefnd er sú nefnd sem hefur að gera með stéttarfélög og vinnudeilur í landinu líka, þannig að málið fái tilhlýðilega umfjöllun þar. Það liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Icelandair liggur á, jú, vissulega, enda peningar í húfi, en það er óþarfi að flýta mannréttindabrotum.