139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

578. mál
[16:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu leita ég fyrir hönd ríkisstjórnar heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008, en hún felur í sér breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um umhverfisvernd og fellur þá inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar EB nr. 916/2007 og er um breytingu á annarri reglugerð, nr. 2216/2004 um staðlað og varið skráakerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB.

Reglugerðin nr. 916/2007 sem ég vísaði til kveður á um breytingu hvað varðar tæknilega útfærslu á skráningu og losun gróðurhúsalofttegunda vegna viðskiptakerfis með heimildir til að losa slíkar lofttegundir. Á ensku er þetta kallað Emission Trading Scheme, með leyfi virðulegs forseta, og hefur stundum verið skammstafað til hægðarauka ETS. Breytingarnar eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis. Með þeim er verið að færa kerfið nær því kerfi sem loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um.

Reglugerðin tengist tilskipun 2003/87/EB, sem samþykkt var á sínum tíma til að koma á fót viðskiptakerfi með heimildir til að losa gróðurhúsalofttegundir innan hins virðulega Evrópusambands. Sú tilskipun hefur raunar ekki verið innleidd hér á landi en innleiðing hennar kallar á breytingar á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda. Þau lög falla undir verksvið umhverfisráðuneytisins. Hæstv. umhverfisráðherra mun því leggja fram lagafrumvarp til að breyta þeim lögum, m.a. til að innleiða tilskipunina. Þegar Alþingi hefur unnið úr þeim lagabreytingum sem í því frumvarpi verða lagðar til hefur skapast sú stoð sem er nauðsynleg til að innleiða reglugerðina sem þetta snýst að mestu leyti um, nr. 916/2007.

Ég veit, frú forseti, að það mun gleðja hv. Alþingi að ekki er gert ráð fyrir neinum sérstökum kostnaði fyrir ríkissjóð vegna innleiðingar á þessari reglugerð í íslenskan rétt. Það leiðir fyrst og fremst að því að kerfinu fyrir skrá yfir losun gróðurhúsalofttegunda hefur þegar verið komið á. Í því kerfi er gert ráð fyrir að kostnaður vegna reksturs þess sé borinn af þeim atvinnurekstri sem sækir um úthlutun á losunarheimildum. Í reglugerðinni er einungis verið að breyta tæknilegum atriðum þess kerfis. Það liggur sem sagt fyrir að það leiðir ekki af sér sérstakan kostnað umfram það sem rekstur þess krefst nú þegar.

Á sínum tíma þegar þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var tekin lá það fyrir að hún kallaði á lagabreytingar hér á landi þegar tilskipunin yrði innleidd. Þess vegna var ákvörðun tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er í samræmi við þær reglur sem Alþingi hefur sett um þinglega meðferð slíkra mála óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni flest þannig að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara sem á sínum tíma var sleginn við ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar.

Það er tillaga mín, frú forseti, að þegar umræðu um þetta merka mál sleppir verði málið sett til frekari úrvinnslu hv. utanríkismálanefndar.