143. löggjafarþing — 96. fundur,  11. apr. 2014.

umræða um sparisjóðaskýrsluna.

[12:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þeir sem læra ekki af sögunni eru dæmdir til að endurtaka hana. Svona rannsóknarskýrslur eru mjög mikilvægar í því tilliti að rannsaka afglöp yfirvalda, ef við getum farið rétt að þessu svo vel megi fara, þannig að við getum haft eftirlit með yfirvaldinu.

Kostnaður við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina sem við ræðum í dag er 600 milljónir. Það eiga að vera fimm klukkustunda umræður í dag, einum degi eftir útgáfu hennar. Ef við setjum það í samhengi kostaði skýrsla rannsóknarnefndarinnar 30 þús. kr. fyrir hverja sekúndu sem við ræðum hana í dag, þessa fimm tíma. Sjáum hvernig mér tekst að rífa 30 þús. kr. á einni sekúndu, einn seðil í einu. Eigum við að prófa? Ég stilli þeim ágætlega upp. Ætlarðu að telja? [Ræðumaður rífur þrjá seðla.] (Forseti hringir.) Það tókst ekki.

En þegar við ræðum skýrsluna í dag í alla þessa fimm tíma skuluð þið horfa til þess að verið er að rífa þrjá á sekúndu (Forseti hringir.) sem endurspeglar kostnaðinn við þessa skýrslu (Forseti hringir.) og við eigum að geta tekið upplýsta ákvörðun og haft eftirlit með framkvæmdarvaldinu með þessu móti.