149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:33]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um skráningu einstaklinga. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962. Megininntak frumvarpsins er hvaða upplýsingar skuli skrá í þessa mikilvægu skrá, þjóðskrá, hvernig þær eru skráðar og hvernig þeim er miðlað.

Áður en ég hef yfirferð yfir sjálft frumvarpið tel ég rétt að vekja athygli á því að í fyrsta lagi stöndum við á ákveðnum tímamótum við framlagningu þessa frumvarps því að með framlagningunni erum við að ljúka endurskoðun á þremur meginlagabálkum er varða skráningu einstaklinga á einn eða annan hátt. Endurskoðunin hófst árið 2010 en fyrsta áfanga var náð með samþykkt frumvarps til laga um lögheimili og aðsetur sem ég mælti fyrir á 148. löggjafarþingi og var samþykkt sem lög um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018, á síðasta ári.

Lög um lögheimili og aðsetur komu í stað annars vegar laga um lögheimili, nr. 21/1990, og laga um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, hins vegar.

Í öðru lagi vil ég benda á mikilvægi skrárinnar, þjóðskrár, hér á landi. Þjóðskrá er sú skrá sem nær allt okkar samfélag byggist á. Hvort sem litið er til skattheimtu ríkis, sveitarfélaga, bótakerfisins, starfsemi fjármálastofnana eða viðskiptamannakerfis atvinnulífsins gegnir þjóðskráin lykilhlutverki. Þannig skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé haldið utan um skrána og það tryggt eftir fremsta megni að hún sé bæði rétt og örugg.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að reifa helstu atriði frumvarpsins. Í I. kafla frumvarpsins er gerð grein fyrir markmiðum frumvarpsins, gildissviði, orðskýringum, stjórnsýslu, persónuvernd, hvaða upplýsingar eru skráðar í þjóðskrá o.fl. Lagt er til að markmið frumvarpsins sé að haldin sé áreiðanleg skrá yfir einstaklinga, að skráning þeirra sé rétt svo hún skapi öruggan grundvöll fyrir tiltekin réttindi og tilteknar skyldur einstaklinga. Þá er það markmið frumvarpsins að skráning upplýsinga í þjóðskrá byggist á bestu fáanlegu gögnum á hverjum tíma.

Liðnir eru nokkrir áratugir frá því að skráin þjóðskrá var sett á laggirnar en við megum samt ekki gleyma því að það er ekki sjálfsagt að skrá sem þessi sé haldin. Þannig eiga Bretar til að mynda enga „þjóðskrá“ líkt og við Íslendingar, svo dæmi sé nefnt.

Þá getur rétt skráning tryggt að einstaklingur öðlist tiltekin réttindi og haldi þeim, en rétt skráning getur einnig sparað ríkinu fjármagn, svo sem við útreikning bóta.

Það er tvennt sem mig langar að nefna áður en ég fer yfir í II. kafla frumvarpsins en það er persónuverndarákvæði 5. gr. frumvarpsins og 6. gr. sem kveður á um skráningarupplýsingar í þjóðskrá.

Svo sem alþjóð veit voru ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga samþykkt á Alþingi síðasta sumar. Segja má að ákveðin vitundarvakning hafi fylgt í kjölfarið og hafa stjórnvöld leitast við að haga löggjöf þannig að hún uppfylli hina nýju persónuverndarlöggjöf. Þá hafa margar stofnanir farið í innra greiningarstarf varðandi það hvernig meðhöndlun persónuupplýsinga er háttað. Þjóðskrá Íslands er engin undantekning hvað þetta varðar.

Í 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild Þjóðskrár Íslands til vinnslu persónuupplýsinga sem hinn skráði leggur til, stofnunin aflar sjálf eða berast frá þriðja aðila, svo sem öðrum opinberum stofnunum eða eiganda fasteignar, svo dæmi sé tekið.

Þá er í 6. gr. kveðið á um það hvaða upplýsingar heimilt er að skrá. Í ákvæðinu er ekki um tæmandi upptalningu að ræða heldur helstu upplýsingar. Þannig er gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt með reglugerð að ákveða að skrá skuli aðrar þær upplýsingar sem þörf er á að safna og halda, svo sem netföng einstaklinga, svo dæmi sé tekið.

II. kafli frumvarpsins fjallar um skráningu einstaklinga. Fram kemur að það sé Þjóðskrá Íslands sem annist skráningu einstaklinga í þjóðskrá og annist útgáfu kennitölu. Rétt er að geta þess að ekki hefur áður verið kveðið á um kennitölu í lögum með þeim hætti sem hér er gert. Þannig hefur skort ákvæði í lög um hver það sé sem gefur einstaklingum kennitölur en lagt er til að framvegis verði skýrt ákvæði um þetta í lögum.

Þá er í kaflanum ákvæði um kerfiskennitölur, þ.e. kennitölur sem gefnar eru út til notkunar fyrir hið opinbera vegna einstaklinga sem ekki þurfa að uppfylla, eða uppfylla ekki, skilyrði skráningar í þjóðskrá. Vakin er athygli á þeirri nýbreytni að verði frumvarpið óbreytt að lögum munu aðeins opinberir aðilar geta haft milligöngu um stofnun kerfiskennitölu líkt og á öðrum Norðurlöndum en ekki einkaaðilar, svo sem bankar. Þá er einnig rétt að vekja athygli á því að í kerfiskennitöluskránni í dag eru um 75.000 kennitölur.

Í III. kafla frumvarpsins er að finna ákvæði um miðlun þjóðskrár og útgáfu vottorða. Gert er ráð fyrir því í frumvarpi þessu að miðlun þjóðskrárinnar verði leyfisskyld. Þannig geta fyrirtæki tekið að sér að miðla skránni, svo sem verið hefur, en einnig mun Þjóðskrá Íslands getað miðlað henni. Um miðlun og notkun kennitölu og annarra persónugreinanlegra upplýsinga gilda reglur laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Gert er ráð fyrir því í framtíðinni, þegar uppfært þjóðskrárkerfi lítur dagsins ljós, að heildarafhending þjóðskrár verði óheimil. Í staðinn munu uppflettingar fara fram þannig að upplýsingar úr miðlægu skránni verða sóttar með vefkalli í skrána. Þannig verða allar uppflettingar rekjanlegar, svo sem gert er ráð fyrir í nýjum persónuverndarlögum, og þá munu einstaklingar geta óskað eftir upplýsingum um það hverjir hafi flett þeim upp í þjóðskrá.

Í dag er þjóðskráin afhent í heild sinni og síðan fer það eftir því hvernig samning viðkomandi kaupandi er með við Þjóðskrá Íslands hversu oft skráin er uppfærð. Þannig hafa sum fyrirtæki keypt þjóðskrána í heild fyrir nokkrum árum en ekki keypt neinar uppfærslur á skránni. Í núverandi kerfi, sem er komið til ára sinna og stenst engan veginn kröfur nútímans, eru uppflettingar í þjóðskrá ekki rekjanlegar.

Þá er gert ráð fyrir þeirri nýjung, þegar uppfært kerfi verður tekið í notkun, að hægt verði að koma í veg fyrir að upplýsingum um nafn og/eða lögheimili eða aðsetur viðkomandi og nánustu fjölskyldu verði miðlað úr þjóðskrá. Ákvæði 14. gr. frumvarpsins sem kveður á um þetta er nátengt ákvæði um svokallað „dulið lögheimili“ í lögum um lögheimili og aðsetur, en gildistöku þess ákvæðis var frestað af tæknilegum ástæðum, með öðrum orðum vegna þess að gamla þjóðskrárkerfið ræður ekki við það. Hið sama er upp á teningnum varðandi 14. gr. þessa frumvarps og önnur ákvæði sem háð eru uppfærðu þjóðskrárkerfi — gildistöku er frestað þangað til nýtt þjóðskrárkerfi er komið í notkun.

Í IV. og síðasta kafla frumvarpsins er síðan að finna ýmis ákvæði, svo sem um íbúaskrá, hvernig meta skuli erlend skjöl, um gjaldtöku og fleira.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að fjalla aðeins um gjaldtöku almennt af hálfu Þjóðskrár Íslands og fjármögnun stofnunarinnar. Ég vil deila þeirri skoðun minni hér að aðgangur að grunnskrám ríkisins, þar á meðal þjóðskrá, eigi að vera gjaldfrjáls, þ.e. án endurgjalds. Ég trúi því að það myndi hafa mjög jákvæð áhrif á samfélagið, nýsköpun og atvinnulífið, að gera þessar upplýsingar gjaldfrjálsar. Það myndi hins vegar þýða að stofnunina Þjóðskrá Íslands yrði að fjármagna eingöngu úr ríkissjóði. Þannig er í dag gert ráð fyrir að rekstur Þjóðskrár Íslands kosti tæpa 1,9 milljarða. Þar af er gert ráð fyrir um 920 millj. kr. beint úr ríkissjóði. Restin, aðrar 930 milljónir, kemur með sölu upplýsinga. Það er því tæpur 1 milljarður sem þarf að brúa ef gera á allar upplýsingar sem Þjóðskrá Íslands safnar aðgengilegar án endurgjalds í núverandi stöðu.

Ég legg því til, virðulegi forseti, og fjalla reyndar um það í greinargerð með frumvarpi þessu, að skipaður verði vinnuhópur sem muni hafa það hlutverk að greina samfélagslegan ávinning af því að gera aðgengi að upplýsingum úr þjóðskrá og öðrum grunnskrám stofnunarinnar gjaldfrjálsan og greina hugsanlegan kostnað sem af því hlytist fyrir ríkissjóð. Ég tel rétt að gefa þessum vinnuhópi drjúgt svigrúm til að gera þetta vel.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað annars vegar til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og hins vegar til 2. umr.