149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:46]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil halda aðeins áfram með trúar- og lífsskoðunarfélögin. Í greinargerð frumvarpsins er talað um að í daglegu tali sé talað um skráningu í trúfélög og þetta breytta orðalag sé frekar til að endurspegla þann praxís sem viðhafður hefur verið. Ég velti fyrir mér hvort ráðuneytið hafi skoðað þau lög sem þetta snertir, vegna þess að ef maður skoðar t.d. 3. gr. laga um sóknargjöld er talað um að einstaklingur sé skráður í þjóðkirkjuna eða skráður í trúfélag eða lífsskoðunarfélag. Það eru þessir tveir hópar, það er skráning í félögin.

Sama er með lög um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Þar stendur í 9. gr., með leyfi forseta:

„Að því leyti sem tilkynning til þjóðskrár um inngöngu í og úrsögn úr trúfélagi …“ o.s.frv.

Hér er að skapast ákveðinn misbrestur í lögunum sem ég vil meina að endurspegli vandræðagang sem við munum lenda í, hið opinbera, með að halda þessa skrá. Þess vegna langar mig að velta því upp hvort ekki þurfi að endurhugsa þetta kerfi.

Nú er t.d. stór hluti lána almennings bundinn vísitölu sem byggir í rauninni bara skoðanakönnun um verðlagsþróun sem framkvæmd er af hinu opinbera. Mætti ekki hugsa sér eitthvert svipað kerfi varðandi það hvernig trúar- og lífsskoðunarfélög fá fjármagn úr opinberum sjóðum? Væru upplýsingar úr ópersónugreinanlegum skoðanakönnunum á staðsetningu fólks í trúar- og lífsskoðunarfélög eitthvað verri en skráningin á því hvert gjöld til skráðra trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga skuli renna, eins og það heitir í frumvarpinu? En það má þó ekki fyrir nokkra muni segja hvert félagsgjöld skuli renna, því að ríkið má ekki innheimta þau fyrir sjálfstæð félög.