149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

skráning einstaklinga.

772. mál
[16:56]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að mikilvægt sé að við ljúkum þessu verkefni. Ég held að við séum öll einbeitt í því. Það eru þó nokkur brýn mál sem við erum að koma hérna inn. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni í því að skynsamlegra hefði verið að bíða með þetta þangað til við værum búnir að fjármagna það. Við erum í heildarendurskoðun á lögum og betra að það komi allt fram í þeirri heildarendurskoðun.

Eins í þeim áformum í öðrum lögum sem tengjast að hluta til því að hér sé komið nýtt þjóðskrárkerfi, skráningarkerfi, og frekar að nota það sem þrýsting til að forgangsraða með þeim hætti að við fáum fjármuni til að þau komist sem fyrst í gagnið, frekar en vera að tína það inn í framtíðinni, einhverja eina, tvær breytingar á lögum. Ég held að það sé betra verklag. Ég veit að allsherjar- og menntamálanefnd tekur þetta verkefni vel til sín. Það er rétt að fjárlaganefndin sé líka upplýst um að mikilvægt sé að horfa til þessa við afgreiðslu bæði á fjármálaáætlun og síðan fjárlögum næsta ár.