149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

frysting fjármuna og skráning aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.

774. mál
[17:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég og hv. þingmaður ótrúlega oft sammála þótt við séum ekki í sama flokki, sem kemur kannski á óvart, en í þessu máli er ég ekki alveg sammála uppleggi hv. þingmanns. Við erum sammála um að þetta er mikilvægt og gott mál, en þegar hv. þingmaður segir að þetta sé pólitískur hvítþvottur þá finnst mér hann mála hlutina ekki alveg í réttum litum, einfaldlega vegna þess að heimurinn er eins og hann er en ekki eins og við viljum hafa hann. Hv. þingmaður vísaði til þeirra vopna sem eru kannski það fyrsta sem kemur í hugann þegar við hugsum um gereyðingarvopn, þ.e. kjarnorkuvopn. Sem betur fer er með gagnkvæmri afvopnun t.d. búið að fækka þeim um 90%, í það minnsta hvað varðar NATO. En síðan eru þjóðir heims, í þessu tilfelli undir hatti Sameinuðu þjóðanna, að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu. Það er náttúrlega gert með að koma í veg fyrir fjármögnun m.a. gereyðingarvopna, en annarra vopna líka og hryðjuverkastarfsemi. Mér finnst ekki rétt að tengja þetta mál með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir.

Ef við fengjum að ráða þá held ég að allir, í það minnsta í þessum sal og á Íslandi, myndu vilja að hér væru engin gereyðingarvopn og helst ekki nein vopn ef út í það væri farið sem væri hægt að nota gegn fólki. En þannig er málið ekki. Þannig er heimurinn ekki. Í þessu máli eru menn sérstaklega að taka á þessum vopnum og ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þess að það eru til vopn sem jafnvel fer ekki mjög mikið fyrir sem geta valdið gríðarlegum skaða og eru skilgreind sem gereyðingarvopn. Við tökum þátt í því og ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um að það er mjög mikilvægt. Varðandi hinn þáttinn þá höfum við rætt hann stundum úr þessum stól og munum örugglega gera það aftur.