149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

stéttarfélög og vinnudeilur.

770. mál
[17:41]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Með frumvarpinu er sú breyting lögð til að ekki verður lengur kveðið á um í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur að aðsetur Félagsdóms skuli vera í höfuðstað landsins. Félagsdómur hefur frá árinu 1998 verið með aðsetur í dómshúsinu við Lækjartorg í Reykjavík þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur er til húsa, en í erindi frá dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, sem barst ráðuneytinu á dögunum, var þess óskað að ráðuneytið myndi finna aðra staðsetningu fyrir Félagsdóm eigi síðar en frá 1. júlí 2019.

Nú stendur yfir leit að nýju húsnæði fyrir dómstólinn og með frumvarpi þessu er verið að tryggja að aðsetur Félagsdóms geti verið annars staðar en í höfuðstað landsins, finnist hentugra húsnæði fyrir dómstólinn utan Reykjavíkur.

Að því sögðu vil ég þó leggja áherslu á að ekki stendur til að færa Félagsdóm út fyrir höfuðborgarsvæðið eðli málsins samkvæmt, þó að ég verði að viðurkenna að persónulega fyndist mér það spennandi að geta fjölgað opinberum störfum úti á landsbyggðinni, en þetta á ekki erindi hvað það snertir.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að áhrif þess verði óveruleg á fjárhag ríkissjóðs, hvort heldur er rekstraráhrif eða áhrif á efnahagsreikning. Félagsdómur er þegar í leiguhúsnæði og er gert ráð fyrir að svo verði áfram í nánustu framtíð, jafnvel þó að aðsetur dómstólsins kunni að verða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu en í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar til umfjöllunar.