Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

virðisaukaskattur o.fl.

952. mál
[15:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski hægt að segja að þar sem um er að ræða framlengingu á öðru úrræðinu sé í sjálfu sér ekki nein breyting að eiga sér stað. Eina breytingin sem er að eiga sér stað er sú að við erum að þrengja að endurgreiðslum vegna virðisaukaskatts af vinnuliðnum. Að öðru leyti þá má kannski segja um skattfrjálsrar úttektir séreignarsparnaðar að það er sá munur á þessu tvennu að úttektir á séreignarsparnaðinum gagnast í mjög mörgum tilvikum fólki sem er ekkert að hreyfa sig á fasteignamarkaði heldur býr bara í sínu húsnæði og nýtir úttektina til að greiða niður lánin sín. Annað á við um endurgreiðslur á virðisaukaskattinum sem eru beinlínis tengdar nýbyggingum. Það sem mér finnst skipta mestu máli við þessar aðstæður sem eru uppi núna er sú gríðarlega framlegð sem virðist vera til staðar við nýbyggingar á íbúðarhúsnæði. Það sjáum við af opinberum tölum.