Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:40]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir sína skeleggu framsögu og skýru og vil meina að það sé full ástæða til þess að tala skýrt í þessu máli. Það lætur lítið yfir sér eins og hæstv. ráðherra kom inn á í sinni ræðu, en því er líka ágætlega fylgt úr hlaði með greinargóðri greinargerð sem er auðvelt að lesa og kynna sér. Í ljósi þeirra orðaskipta sem hafa átt sér stað hér á milli hæstv. ráðherra og hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur þá vil ég geta þess, og tek undir það sem ráðherra segir, að það eru auðvitað skiptar skoðanir um þetta mál í stjórnarliðinu. Það þarf ekki að þýða að málið sé andvana fætt þó að það megi láta að því liggja í einhverjum orðum. Því vil ég bara gera grein fyrir því að við í þingflokki Vinstri grænna viljum árétta mikilvægi þess að okkar helstu sérfræðingar í stjórnskipunarrétti komi að þinglegri meðferð málsins og ég heyri það í framsögu hæstv. ráðherra að hún er hjartanlega sammála því. Ég held reyndar að þegar um mál eins og þessi er að ræða þá skipti líka máli að við vöndum til verka og ég treysti okkur nú reyndar öllum til að gera það í góðri og ágætri umræðu. Það er einhver ástæða fyrir því að við erum komin á þennan stað hér í dag og ég tek undir það markmið sem miðar að því að reyna að eyða þeirri óvissu sem felst í þessari tillögu hæstv. ráðherra.

Það er annað sem við hnykktum á í fyrirvara við málið, þ.e. að við viljum að þessi umfjöllun í þinglegri meðferð byggi á skýrum grundvelli um stjórnarskrárvarið fullveldi þjóðarinnar og löggjafarvaldið sem Alþingi hefur. Mig langar að spyrja í fyrra andsvari hæstv. ráðherra, vegna þess að ég heyri að hér er horft til Noregs í samhengi þess sem frændur okkar þar gerðu á sínum tíma, ég veit að þetta var innleitt með öðrum hætti þar og samþykkt með öðrum hætti, hvort ráðherra þekki til dæma þar sem gætu hugsanlega komið upp í þessari umræðu hér og verið okkur gagnleg.