Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[16:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að málið þurfi að fá sína þinglegu meðferð og ég tel það til bóta að kallaðir verði til sérfræðingar, lagasérfræðingar, hvort sem það er á sviði stjórnskipunarréttar eða Evrópuréttar eða alþjóðaréttar almennt, til að fara yfir málið. Ég held að það sé eðlilegt í þinglegri meðferð. Þessi bókun á sínum tíma, bókun 35, verður auðvitað til vegna þess að þegar verið er að vinna að EES-samningnum þá liggur það alveg skýrt fyrir varðandi þau ríki sem ekki voru í Evrópusambandinu — sum þeirra eru nú komin inn í Evrópusambandið en önnur ekki — að þar var skýr vilji til að skilja algerlega að og framselja ekki lagasetningarvald til Evrópusambandsins. Til þess að geta gert það var bókun 35 smíðuð. Hún er síðan innleidd og innleidd með þeim hætti eins og lögin standa núna og innleidd með aðeins öðrum hætti í Noregi. Við lítum að sjálfsögðu til þess og það hefur verið litið til þess um árabil í þeirri vinnu sem hefur verið innan stjórnkerfisins að leita leiða til að bæta úr þessari stöðu. Ég held að það hljóti að vera dæmi þaðan sem gætu gagnast til að bera saman bæði við túlkun hingað til og svo að bera saman þá breytingu sem hér er lögð til við stöðuna eins og hún er þar vegna þess að það liggur fyrir að að ákveðnu leyti má segja að Norðmenn hafi gengið örlítið lengra heldur en við erum að gera með þessu frumvarpi. En við teljum okkur vera að gera nóg til að standa við þær skuldbindingar sem gefnar voru fyrir 30 árum síðan. Þar hefur þetta að því leytinu til ekki verið vandamál eins og hér. En ég er nokkuð viss um (Forseti hringir.) að það sé hægt að bera saman bækur og taka dæmi þaðan sem gætu gagnast í umræðunni.