Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:15]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þingmaður, ég gleðst yfir tilefninu að geta komið hérna upp og tekið til varna fyrir EES-samninginn, samninginn sem flokkur minn, Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað, tók meginþátt í að keyra okkur inn í. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann aðeins út í söguna, af því að hv. þingmaður fer yfir það hvernig samningurinn hafi þróast með ógnvænlegum hætti og einhvern veginn falið í sér auknar skyldur á hendur aðildarríkjum o.fl. Mig langaði, með leyfi forseta, til að vísa hér í 3. gr. EES-samningsins:

„Samningsaðilar skulu gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir.“

Og áfram til bókunar 35, með leyfi forseta:

„Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.“

Þá spyr ég, virðulegi forseti, hv. þingmann að því: Var þarna ekki verið að binda hendur löggjafans? Hefði hv. þingmaður þarna fyrir nokkrum áratugum síðan mótmælt inngöngu í EES-samstarfið á þeim forsendum, sbr. ummæli hv. þingmanns um löggjafann og um frjálsar hendur Alþingis til lagasetningar? Gerðu þeir þingmenn sem keyrðu okkur inn og stuðluðu að því að við fórum inn í EES-samstarfið, m.a. forverar mínir í Sjálfstæðisflokknum á Alþingi, sér hreinlega ekki grein fyrir því að það fylgdu skyldur því að vera í EES-samstarfinu? Af því að hv. þingmaður fer mikinn um það að þetta séu ekki bara réttindi heldur líka skyldur, gerðu þeir sér ekki grein fyrir því að við inngönguna þá var fyrsta skrefið að innleiða hérna hundruð ef ekki þúsundir reglna beint frá Brussel? Gerðu þeir sér ekki grein fyrir því að EES-samningurinn væri lifandi plagg sem þróaðist með samfélaginu, með þjóðfélaginu? Gerðu þeir sér ekki grein fyrir því, hv. þingmaður?