Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

Evrópska efnahagssvæðið.

890. mál
[17:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að hv. þingmaður hafi alveg örugglega djúpa tilfinningu fyrir því að 102. gr. virkar eins og frelsið: Ef þú notar það ekki þá dofnar það. Ég held að hv. þingmaður átti sig alveg á hvað ég er að fara með þessu. Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki þorað að beita 102. gr. hingað til. Það hefur bara verið þannig. Við erum búin að vera þarna inni í 30 ár og nú kemur einhver svipa frá einhverjum starfsmanni hjá ESA sem kemur vonandi skýring á seinna hvað orsakar.

Þessi umræða um það að þeir sem gjaldi varhuga við því með hvaða hætti EES-samningurinn hefur þróast séu andstæðingar EES-samningsins og kunni ekki að meta það sem í honum felst, það er auðvitað bara einhver strámaður sem menn auðvitað bara nota eins og mönnum hugnast best og gagnast þeirra rökræðu. Ég hef ekki í neinu samhengi verið að segja að við ættum að ganga út úr EES-samningnum en ég er þeirrar skoðunar að við eigum að geta endurskoðað hluti og kafað ofan í þá. Ég er t.d. efins um að (Forseti hringir.) aðild okkar að Schengen sé að öllu leyti að gera góða hluti fyrir okkur. Það olli mér miklum vonbrigðum á síðasta kjörtímabili þegar skýrsla sem hæstv. utanríkisráðherra vísaði hér til áðan, (Forseti hringir.) EES-skýrsla hóps sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fór fyrir, var á endanum bara um helming þeirrar spurningar sem fram var lögð, (Forseti hringir.) þar sem var gerð grein fyrir kostum EES-samningsins en ekki vikið í einu orði að göllum hans og þá verðum við að mappa upp (Forseti hringir.) til að geta átt þetta samtal. Ég biðst afsökunar á tímanum, frú forseti.