153. löggjafarþing — 96. fundur,  19. apr. 2023.

afvopnun o.fl.

953. mál
[18:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný rammalöggjöf um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit sem leysir af hólmi sex lagabálka, veitir heildaryfirsýn yfir nátengda málaflokka, stuðlar að samræmingu og eykur skilvirkni og hagræði.

Frumvarpið er unnið í utanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og viðkomandi ríkisstofnanir. Upphaflega stóð einungis til að uppfæra lög um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu, nr. 58/2010, en sú vinna leiddi fljótlega í ljós að ástæða væri til umfangsmeiri endurskoðunar á löggjöf er varðar afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit.

Markmið frumvarpsins er þríþætt. Í fyrsta lagi að auka alþjóðaöryggi og tryggja virðingu fyrir mannréttindum, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, m.a. með því að hafa eftirlit með, banna eða leyfisbinda útflutning með hlutum með tvíþætt notagildi. Í öðru lagi að banna tiltekin vopn, hluti og háttsemi sem þeim tengjast í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar og í þriðja lagi að vinna að markmiðum þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland en þar er lögð áhersla á að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga, m.a. með afvopnun. Auk þeirra markmiða sem talin eru upp í 1. gr. frumvarpsins felast viðskiptalegir hagsmunir í því að hér á landi sé viðhaft útflutningseftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar þar sem mörg ríki heimila ekki innflutning slíkra hluta nema útflutningsleyfi liggi fyrir.

Frumvarpið hefur í raun ekki að geyma ákvæði sem eru nýmæli að öðru leyti en því að styrkja og skýra framkvæmd samkvæmt núgildandi lögum. Þannig er fyrst og fremst verið að lögfesta raunverulega framkvæmd, skapa heildaryfirsýn með því að sameina lagabálka og uppfæra innleiðingu þjóðréttarlega skuldbindinga.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, sem eru þýðingar á hugtökunum „disarmament“ og „arms control“.Afvopnun hefur um árabil verið meðal hornsteina utanríkisstefnu Íslands og meðal þeirra grunngilda þjóðarinnar sem höfð eru að leiðarljósi í þjóðaröryggisstefnunni. Engu að síður hefur hingað til skort heildarlöggjöf um málaflokkana og skýrari yfirsýn yfir þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Kaflinn inniheldur ákvæði sem lögfesta þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt átta alþjóðasamningum sem allir hafa verið fullgiltir. Þar af hafa skuldbindingar samkvæmt fjórum þeirra verið lögfestar með sérlögum sem verða felld úr gildi nái frumvarpið fram að ganga. Samningarnir átta eru taldir upp í athugasemdum við frumvarpið og vísa ég til þeirrar umfjöllunar. Jafnframt hefur kaflinn að geyma almennt ákvæði um framkvæmd annarra samninga sem tengjast afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, samræmd ákvæði um viðbragð innan lands og alþjóðlegt eftirlit vegna umræddra samninga.

Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um útflutningseftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi sem byggja á ákvæðum laga nr. 58/2010, um eftirlit með hlutum og þjónustu sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Ákvæðin hafa verið uppfærð með hliðsjón af breytingum á regluverki Evrópusambandsins, enda byggðu lögin á reglugerð sambandsins sem er þó ekki hluti af EES samningnum og þar af leiðandi hafa breytingarnar ekki verið innleiddar. Þrátt fyrir að hér á landi séu ekki mörg fyrirtæki sem stunda útflutning á vörum eða þjónustu með tvíþætt notagildi getur verið um mjög verðmætar vörur að ræða sem byggja í mörgum tilfellum á íslensku hugviti. Virkt útflutningseftirlit er til þess fallið að styrkja stöðu þessara fyrirtækja, til að mynda vegna þess að þeim verður auðveldara um vik að flytja inn vissa hátæknivöru í eigin framleiðslu ef betur er tryggt að hún verði ekki endurútflutt til landa sem eru á bannlistum annarra ríkja.

Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um þvingunarúrræði og viðurlög en ákvæðin eru í takti við gildandi lög sem verið er að sameina í heildarlög.

Loks er í VI. kafla fjallað um gjaldtöku og breytingar á öðrum lögum. Þar ber helst að nefna tillögu um breytingu á loftferðarlögum sem kemur til vegna tillögu um breytingu á stjórnsýsluframkvæmd varðandi leyfisveitingar til hergagnaflutninga til að auka skilvirkni og stuðla að því að þjóðréttarlegar skuldbindingar séu réttilega innleiddar.

Gildandi regluverk um flutning hergagna var á sínum tíma gert töluvert víðtækara heldur en þjóðréttarlegar skuldbindingar kveða á um og rök hníga til. Ríflega 70% umsókna sem berast um leyfi til flutnings hergagna með loftförum lúta að flutningum sem hafa ekki viðkomu á Íslandi og í tæplega 80% allra tilfella er lokaáfangastaður hergagnanna ríki sem Ísland á í öryggis- og varnarsamstarfi við. Mikilvægt er að gera framkvæmd skilvirkari og einfaldari í þessum tilvikum. Verða slíkar umsóknir áfram leyfisskyldar af hálfu Samgöngustofu sem metur umsóknir með hliðsjón af flugöryggi í samræmi við ákvæði Chicago-sáttmálans, en bann við flutningi hergagna og varnartengdra vara verður fært undir vopnalög. Slíkar leyfisveitingar verða áfram á ábyrgð utanríkisráðherra.

Með frumvarpi til breytinga á vopnalögum verða lögfestar þjóðréttarlegar skuldbindingar samkvæmt vopnaviðskiptasamningi Sameinuðu þjóðanna og mun mat á umsóknum vera í samræmi við ákvæði samningsins. Þannig verður óheimilt að veita leyfi til flutnings hergagna eða varnartengdra vara ef það gengur gegn gildandi þvingunaraðgerðum, ef ætla má að hergögnin eða varnartengdu vörurnar verði notaðar til að fremja alvarleg mannréttindabrot eða hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi eða glæpi gegn friði.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanríkismálanefndar og 2. umr.