154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

dómur Mannréttindadómstóls Evrópu .

[13:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrst í framhaldi af spurningu hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar um það hvort við þurfum kannski bara eftirlit með kosningum: Svarið er ósköp einfalt, já, og það er ekkert til að skammast okkar fyrir. Það er það sem þingflokkur Pírata bað um fyrir kosningarnar 2021, bað um að hingað kæmi Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og hefði eftirlit með þessum kosningum. Það hefði betur verið gert vegna þess að þá hefðum við hlutlausa fagmenn til þess að skera úr um hvað hefði misfarist í þessum kosningum frekar en okkur sem, hversu góð sem við teljum okkur vera, erum ekki hlutlaus í þessu máli.

Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson vonast til þess að við getum sett pólitískan ágreining til hliðar þegar við vinnum þessi mál áfram. Rifjum samt upp hvernig atkvæðagreiðslan fór hér þegar rannsókn kjörbréfa var afgreidd. Fyrst kom skásta tillagan, frá hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni, um að dæma allt saman ógilt, vegna þess að við hefðum enga leið til að vita hvað væri rétt niðurstaða. (Forseti hringir.) Svo kom tillaga hv. þingmanna Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Svandísar Svavarsdóttur, næstskásta tillagan, (Forseti hringir.) um að dæma Norðvesturkjördæmi ógilt. Það var líka fellt þannig að á endanum samþykkti meiri hluti þings verstu mögulegu niðurstöðuna, (Forseti hringir.) menguðu atkvæðin, þingmenn sem Mannréttindadómstóll Evrópu er að segja að (Forseti hringir.) ættu kannski ekkert heima hérna. (Forseti hringir.) Vandinn er að almenningur var svikinn um endanlega niðurstöðu í þessu máli. Það er almenningur sem situr uppi með skarðan hlut í þessu máli.