154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við tryggjum jafna stöðu fólks eftir kyni í stjórnarskrá og í almennum lögum, m.a. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynja. Í þeim lögum eru lagðar skyldur á atvinnurekendur að auðvelda starfsfólki að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof. Atvinnurekendur mega heldur ekki láta orlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á fólk á vinnumarkaði. Nýlega steig kona fram í fjölmiðlum og sagði frá því að henni hefði verið boðin lægri staða og laun hjá opinberri stofnun eftir fæðingarorlof. Hún hafði eignast tvö börn með stuttu millibili en þegar hún ætlaði að byrja aftur að vinna voru þetta viðtökurnar.

Þegar ég sjálf hóf störf á lögmannsstofu var ég svo lánsöm að vera ráðin til lögmannsstofu sem var sérstaklega fjölskylduvæn og lagði í rauninni áherslu á að ráða konur á barneignaraldri. Ég man hvað vinkonum mínum þótti það alveg ótrúlega merkileg staðreynd, þær sem voru á sama tíma í atvinnuviðtölum þar sem var verið að spyrja þær út í fjölskylduáætlanir. Mæður taka almennt lengra orlof en feður og geta þurft að hverfa fyrr af vinnumarkaði á meðgöngu. Það er sem sagt alla jafna meira vesen á konum á barneignaraldri en öðrum starfskröftum. Við Íslendingar höldum áfram eignast færri börn og meðalaldur mæðra hækkar. Viðhorf til kvenna á vinnumarkaði hefur þar örugglega talsvert að segja. Ég hef því lagt fram fyrirspurn til hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um það hvort atvinnuréttindi kvenna sem snúa til vinnu að loknu fæðingarorlofi séu nægilega tryggð í lögum. Mér þykir þetta vera mikilvæg umræða að taka hér á þinginu og vona að skilaboðin verði skýr.