154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[16:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að óska nýjum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til hamingju með þetta mikilvæga og góða frumvarp sem hann leggur fram hér og mælir fyrir. Ég er ein af þeim sem hef enga trú á því að ríkið eigi að standa í rekstri fjármálafyrirtækja eða að eiga banka. Og mikið væri nú gott ef við þyrftum í raun ekkert að vera að fjalla um það frumvarp sem hér liggur fyrir, þ.e. um það hvernig við eigum að losa um eignarhlut okkar í bankanum. En jú, við stöndum í þeim sporum í ljósi þess að bankarnir komu upp í fangið á ríkissjóði eftir hrun og eftir samkomulag við þá sem þá voru eigendur. Ég held meira að segja að á þeim tíma, þó að ég hafi ekki verið hér þá, hafi enginn séð það fyrir sér að ríkið ætti langtímum saman að standa í bankarekstri, enda er það alveg ljóst, af allri þeirri umgjörð sem sett hefur verið í kringum það eignarhald, að það var alltaf hugsað tímabundið.

Ég held þess vegna að það sé ofboðslega mikilvægt að við seljum þennan eignarhlut og að við finnum leiðir til að ráðstafa því fé sem þar liggur í aðra mikilvægari þætti, innviði og þjónustu sem ríkið á að sinna. Í mínum huga er það þannig að ríkið ber ábyrgð á öryggis- og varnarmálum, það ber ábyrgð á að hér sé löggæsla, hér séu samgönguinnviðir, gott menntakerfi, gott heilbrigðiskerfi; að við stöndum vörð um þá sem höllum fæti standa með millifærslum í velferðarkerfinu okkar. En ég get ekki séð ástæðu til þess að ríkið standi í því að eiga og reka banka. Og mér þætti í raun vænt um að heyra fleiri þingmenn segja að þeir hafi raunverulega trú á því, að þeir komi þá upp í þá ræðu. Það var til að mynda ljóst af ræðu hv. þm. Ingu Sæland að það er stefna Flokks fólksins að eiga og reka banka og önnur fyrirtæki sem gefa af sér. Það er þá bara skýrt að það er þeirra stefna en það er ekki stefna Sjálfstæðisflokksins.

Það er auðvitað ekki sama hvernig þetta er gert og það er nauðsynlegt að vanda til verka. Nú á ég hvorki sæti í efnahags- og viðskiptanefnd né í fjárlaganefnd, þar sem ég hef átt sæti síðustu ár. Ég hef þar af leiðandi tekið þátt í þeim útboðum og þeim söluferlum sem þegar hafa farið fram. Og mig langar að segja að ég taldi að við værum með mjög góða umgjörð um það hvernig við myndum losa um eignarhald í bönkunum. Ég lagði mig fram, bæði þegar ég sat í efnahags- og viðskiptanefnd og í fjárlaganefnd, að fara vel yfir þær tillögur sem þinginu bárust, spyrja þeirra spurninga sem ég taldi að skiptu máli þegar við fengum gesti á okkar fund og í meðferðinni sem þingið fór í gegnum. Ég lagði mig þannig fram um að vanda mig eins og kostur væri við það mikilvæga verkefni að losa um eignarhald í bönkunum.

Ég held að að stærstu leyti hafi það nú gengið býsna vel. En því miður ekki að öllu leyti og við síðasta útboð var ljóst að aðilar sem komu að því að selja eignarhlut reyndust ekki starfi sínu vaxnir og fóru langt út fyrir sín mörk. Það er miður því að það er svo mikilvægt að trúverðugleiki og traust ríki í kringum svona athafnir. Það er mikilvægt að á því sé tekið og ramminn sé skýr og þeir sem starfa innan hans fylgi honum.

Ég vil því hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að fara vel yfir frumvarpið sem hér liggur fyrir og aðferðirnar sem þar eru settar fram, spyrja þeirra spurninga sem þau telja ástæðu til að spyrja og tryggja að þessi hlutur verði seldur með sem bestum hætti þar sem hvað mest fæst fyrir bankann en engu að síður að það sé í opnu og gegnsæju ferli eins og hér er verið að leggja til.

En stóra atriðið sem ég vildi koma á framfæri er þetta: Ég hef ekki trú á því að ríkið eigi að standa í því að reka banka, jafnvel þó að þessi fjárfesting — sem var í raun ekki fjárfesting, þetta var eign sem kom upp í fang ríkisins — hafi á síðustu árum skapað ríkissjóði töluvert fé með arðgreiðslum. Það er jákvætt og það er gott að svo fór í ljósi þess sem á undan var gengið. En það er engin trygging fyrir því að svo verði í framtíðinni. Bankarekstur er í eðli sínu áhætturekstur, það ættum við öll að þekkja og vita og skilja. Ég hef reyndar þá trú að á næstu misserum og árum muni bankarekstur breytast töluvert mikið með nýrri tækni og þá held ég að slíkur rekstur sé miklu betur kominn í höndum einkaaðila; að það sé okkar hlutverk að búa til regluverkið þar í kring frekar en að fyrirtæki, sem eru í raun í eigu ríkisins — þingmenn eða ráðherrar eiga samt ekki að koma þannig að við búum til einhverja armslengdarmilliliði, hægri vinstri, til að tryggja að svo verði. Á endanum verða þetta aðilar sem geta svolítið gert það sem þeim hugnast best. Það er ekki fyrirkomulag sem ég held að eigi að vera við lýði. Ég held að það sé mikilvægt að við losum um þennan eignarhlut hið fyrsta.