154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[18:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í ræðu þingmannsins komu fram upplýsingar sem við fáum oft út úr því að fara í gegnum samráðsgáttina. Hv. þingmaður minntist á umsögn Arion banka sem er einmitt þess eðlis að þar eru hlutir sem við höfum tekið tillit til og birtast í frumvarpinu og við munum síðan taka til okkar í verklagsreglunum, þ.e. varðandi einhvers konar sameiginlegan umsjónarmann eða samræmingaraðila, fjármálaráðgjafa sem við munum ráða. En aftur er auðvitað mikilvægt að geta tekið það samtal við þingnefndina og við þingið þannig að það sé alveg skýrt hvað við erum að fara að gera, það sé á opnu borði og gerist síðan nákvæmlega eins og viðskipti gerast þegar þau eru hvað best, þegar búið er að búa þannig um hnútana að ekki leiki neinn vafi á neinu og menn séu ekki með eitthvert óþarft val eða efa um það hvernig hlutirnir gerast.

Hv. þingmaður nefndi reyndar líka, og nokkrir aðrir, að mikilvægt væri að fá sem hæst verð og að í umsögn Arion banka hefði verið bent á ákveðna hluti eins og t.d. að það að birta upplýsingar um kaupendur og eitthvað slíkt muni hugsanlega hafa þau áhrif að lægra verð fáist. Ég held að í því tilviki séu þeir hagsmunir verðmeiri að hlutirnir séu gagnsæir og að allar upplýsingar séu uppi á borðunum heldur en hugsanlega að ná einhverju örlitlu hærra verði. Ég vil segja það hér. Auðvitað eigum við að sækjast eftir því að fá sem hæst verð en út frá þeim grunnupplýsingum og grunngildum sem við göngum út frá. Ég vildi bara nota síðustu sekúndurnar í mínu andsvari til að koma því á framfæri og þakka að öðru leyti fyrir umræðuna.