154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[18:33]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það veldur mér miklum vonbrigðum að heyra að Samfylkingin sé á þessum stað. Ég held að það skipti hins vegar máli að Samfylkingin segi þá líka frá því. Þegar maður hlustar á formann Samfylkingarinnar þá talar hún eins og Samfylkingin sé búin að átta sig á stöðu mála og sé jafnvel að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir hægagang í grænorkumálum. Samfylkingin samþykkti ekki rammann — þessi leið gengur út á það að koma til móts við þá stöðu sem við erum í og flýta málum, eins og hv. þingmaður nefnir, og einfalda þau — en mun núna, ef ég skildi hv. þingmann rétt, leggjast gegn því. Það er grafalvarlegt mál. Það eru ekki góðar fréttir að Samfylkingin sé á þeim stað.

Varðandi spurningu hv. þingmanns, og ég þakka hv. þingmanni fyrir hana, verð ég að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því til hvers hv. þingmaður er að vísa. Hér er farið yfir sérstöku málsmeðferðina þar sem ráðherra á hverjum tíma á að hafa mjög góðar upplýsingar til að taka ákvarðanir út frá. En þetta er til að einfalda vegna þess að okkur vantar græna orku. Við höfum gert ótrúlega lítið í 15–20 ár þegar kemur að grænorkumálum og það er komið að skuldadögum. Það er bara mjög alvarlegt fyrir íslenska þjóð. Síðan er það auðvitað þannig að þetta form, eins og hv. þingmaður þekkir, að búa til græna orku, hefur líka ákveðna sérstöðu. Allar þær þjóðir sem við berum okkur saman við, og ég tala nú ekki um Evrópusambandið sjálft, ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til þar, róa nú að því öllum árum að einfalda sína ferla þegar kemur að grænorkumálum. Markmiðið er alltaf það sama, að flýta ferlinu, en á sama tíma að gæta að því sem menn verða að gæta að.