154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni hér í dag er mikil þörf á skýrari lagaramma utan um þróun vindorkukosta á Íslandi, og hefur verið um nokkurt skeið. Það sem hér hefur verið kallað í umræðunni gullgrafaraæði held ég að fari nú ansi nálægt tilfinningunni sem fólk í ýmsum sveitum hefur þegar það sér þær skýjaborgir sem einhverjir fjárfestar hafa varðandi uppbyggingu á vindorkuverum í sveitarfélagi viðkomandi. Það er því mikilvægt að við stígum inn með einhvern ramma sem geti m.a. gert fólki ljóst að heimamenn hafi eitthvað um þetta að segja, að ekki sé að fara af stað einhver lest sem valti yfir allar sveitir landsins án þess að heimamenn hafi eitthvað um það að segja.

Þetta frumvarp er dálítið seint fram komið miðað við það hversu brýnt verkefni ríkisstjórnin hefur sagt að hér væri á ferðinni. Frá stofnun árið 2017 hefur staðið til að leggja fram frumvarp til að slá lagaramma utan um vindorkuna. Gerð var atlaga að því í tíð forvera núverandi hæstv. ráðherra sem fyrir réttum þremur árum, í apríl 2021, mælti fyrir frumvarpi og þingsályktunartillögu um vindorkuna sem gengu síðan til umhverfis- og samgöngunefndar og lentu þar í hakkavélinni víðfrægu þar sem mjög mörg góð mál enda þegar svo seint er liðið á kjörtímabilið. Það er þess vegna áhugavert að ekki hafi verið bætt í, ekki hafi verið unnið hraðar en raun ber vitni, ekki hafi t.d. verið byggt á þeim grunni sem lá fyrir árið 2021 heldur hafi því öllu verið kastað til hliðar þegar ríkisstjórnin endurnýjaði heitin eftir kosningar haustið 2021. Afraksturinn liggur loksins fyrir, frumvarpið sem við ræðum hér nú og tillaga til þingsályktunar sem við ræðum á eftir, þremur árum eftir að Alþingi hefði þannig séð getað samþykkt lagaramma utan um þetta og sex árum eftir að ríkisstjórnin byrjaði að leggja einhver drög að þessu.

Ég nefni þetta, virðulegur forseti, bara í því samhengi að hæstv. ráðherra verður tíðrætt um að kyrrstaða hafi ríkt í þessum málaflokki. Þótt það rími ekki alveg við þær framkvæmdir sem hafa átt sér stað hjá orkufyrirtækjunum á síðustu tíu til fimmtán árum þá er kannski hægt að taka undir með ráðherranum að því leyti að pólitísk kyrrstaða hefur verið innan ríkisstjórnarinnar þar sem hún hefur ekki náð saman um ágreiningsefni á borð við þetta.

En gott og vel, nú er frumvarpið fram komið. Það litast hins vegar af því að enn eru ýmsir endar lausir, t.d. hjó ég eftir því í framsögu hæstv. ráðherra, þegar hann nefndi hvar væri lagt til að ekki væri í boði að setja niður vindorkuver, að þar nefndi hann B-hluta náttúruminjaskrár sem er ekki enn þá kláraður af hæstv. ráðherra þó að hann sé kominn langt yfir tímann þar. Síðan er grundvöllur þeirrar undanþáguleiðar sem er búinn til hér fyrir hluta vindorkuvera nokkuð óljós og ekki er búið að klára þá vinnu heldur. Á þetta var bent í fjölda umsagna í samráðsgátt stjórnvalda, að 5. gr. frumvarpsins, þar sem talað er um að verkefnisstjórn skuli kanna hvort einstakir virkjunarkostir uppfylli það skilyrði að stuðla að því að ná markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og kolefnishlutleysi, væri ekki nógu skýr. Hér eru umsagnirnar á svipuðum stað, hvort sem þær eru frá Samtökum iðnaðarins, Landvernd eða Alþýðusambandinu. Hún er ekki nógu skýr vegna þess að t.d. hefur aldrei verið skilgreint hvað felst í kolefnishlutleysi. Það hefur verið lögfest en það hefur ekki verið skilgreint. Þá hefur ekki verið lögfest forgangsröðun á raforku. Á þetta hefur ítrekað verið bent. Þegar hæstv. ráðherra bendir á að orkumál séu loftslagsmál þá er einfaldast að spyrja bara á móti: Já, en hvaða tryggingu höfum við fyrir því að eitt einasta nýja megavatt rati í einhverja loftslagsvæna aðgerð? Þar hefur ríkisstjórnin látið undir höfuð leggjast að breyta regluverkinu.

Mig langar að nefna hér líka álitaefni sem við þurfum væntanlega að taka til skoðunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þegar málið gengur til hennar og það er þessi ágæta hugmynd um að slá skjaldborg utan um miðhálendið okkar, þessa miklu og einstöku náttúru sem Ísland býr yfir sem allt of mikil ásókn er í að nýta á óafturkræfan hátt þannig að gæði hennar skerðist varanlega. Mér finnst góð hugmynd að við sammælumst um að vindorkuver eigi ekki heima uppi á hálendi. En mér finnst jafn góð hugmynd að við sammælumst um að aðrar tegundir af orkuverum eigi ekki heldur heima þar uppi. Þetta er eitthvað sem við í umhverfis- og samgöngunefnd þurfum að sjá hvort hægt sé að ná saman um vegna þess að ef við horfum til langrar framtíðar þá eru ósnortin víðerni eitthvað sem mun halda áfram að vaxa í verðmæti, ekki bara fjárhagslegu verðmæti í þeim skilningi að fólk sæki þangað sem ferðamenn heldur líka bara vegna þess hvað þau gefa fólki þegar það fer þangað, innblásturinn sem fólk fær á hálendinu, eitthvað sem ég held að hæstv. ráðherra þekki jafn vel og hver annar sem duglegur fjallamaður og skytta, ef ég man rétt. (Gripið fram í.) En ráðherra finnst engu að síður gaman að labba um hálendið, við skulum segja það. Þetta skulum við skoða í hv. nefnd.

Þá langar mig að nefna hér örstutt það sem er kannski umdeildast af því sem hægt er að ráða af umsögnum við málið á fyrri stigum og er líklegt að muni veltast hvað mest í nefndinni, það er 5. gr. um sérstaka málsmeðferð tiltekinna virkjunarkosta í vindorku. Ég held að grundvallarhugmyndin um að vindorkuver eigi heima í rammaáætlun eins og önnur orkuver sé í grunninn mjög góð og þess vegna þurfum við að fara svolítið varlega þegar við búum til hjáleið þar sem hluti vindorkuvera er tekinn út úr því samhengi. 5. gr. snýst í rauninni um það að ákveðin vindorkuver heyri ekki undir rammann og forsendurnar fyrir því þurfa að vera eins skýrar og hægt er. Þar hljóma viðvörunarbjöllur þegar bent er á að það sé bara frekar óljóst hvað felist í því að stuðla að orkuskiptum og styðja við markmið Íslands um kolefnishlutleysi. Það eru ekki bara ungir umhverfissinnar heldur Samtök iðnaðarins sem segja að það sé vafi um hvort slík almenn tilvísun sé nægilega skýr til að hægt sé að beita þessu ákvæði. Þar að auki vekur þetta enn fremur spurningar um það hvort stjórnsýslan sé í stakk búin til að takast á við verkefni á borð við svona flýtimeðferð. Það hefur ítrekað komið fram við umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar um ólík mál, um leyfisveitingaferli Orkustofnunar t.d. og þau lögbundnu hlutverk sem sú stofnun hefur, að stór ástæða fyrir því að tafir verða á afgreiðslu mála þar er fjárskortur. Vanfjármögnuð stjórnsýsla getur ekki sinnt flýtimeðferð.

Það vekur því athygli að í tillögu til fjármálaáætlunar sem lögð var fram hér á þingi í dag, ef við skoðum málaflokk 15, um orkumál, þá stendur hann í 15 milljörðum á fyrsta ári áætlunarinnar, lækkar svo umsvifalaust niður í 12 milljarða, að mig minnir, að mestu leyti vegna þess að dregið er úr framlögum til Orkusjóðs, og svo helst framlagið nokkuð óbreytt út líftíma áætlunarinnar. Ég veit að það er ekki allt mælt í krónum og aurum en hérna hljótum við að geta lesið eitthvað út úr fyrirætlunum ráðherrans. Það þarf að fara saman hljóð og mynd. Það þarf að fara saman að ætla að setja hluti í forgang og veita stjórnsýslunni þau verkfæri sem þarf til þess að setja hluti í forgang. Þau verkfæri eru yfirleitt bara mannafli, þau eru fólk, fólk sem þarf laun og starfsaðstöðu. Forgangurinn er þannig oft og tíðum mælanlegur í krónum og aurum þegar um er að ræða verkefni hins opinbera.

Að því sögðu þá hlakka ég til að takast á við þetta mál í hv. nefnd. Ég velti því samt fyrir mér hvort það kunni að vera nokkuð til í því sem fram kemur í umsögn Landverndar, að það sé kannski fullgeyst að vera að klára frumvarpið án þess að vera búin að móta alla undirliggjandi stefnu. Hér er ég búinn að nefna það að markmið í loftslagsmálum og orkuskiptum og um kolefnishlutleysi eru kannski ekki nógu fast undirlag til að byggja á en það gæti átt við um fleiri þætti í þessu. Þetta er allt eitthvað sem við munum taka til skoðunar í nefndinni

Að lokum langar mig bara að vekja athygli á breytingartillögu sem lögð hefur verið fram hér við 1. umræðu þessa máls sem snýst um að breyta stærðarmörkum virkjunarkosta sem falla undir verndar- og orkunýtingaráætlun. Í þessu frumvarpi ráðherrans er miðað við 10 MW markið sem mikið hefur verið deilt um og beint var til ráðherra við afgreiðslu síðustu rammaáætlunar að taka til endurskoðunar. Hér er lagt til 10 MW markið af ráðherranum til samræmis við það 10 MW mark sem fyrir er í lögum um rammaáætlun. Það er tillaga þess sem hér stendur að færa þessi mörk úr 10 MW niður í 1 MW, bæði fyrir vindorkuver og aðra raforkukosti sem rammaáætlun fjallar um. Það segir sig eiginlega sjálft að þessu samhliða þurfi að styrkja stjórnsýslu orkumála. Með slíkri breytingu myndi fjölga verulega þeim kostum sem teknir eru til umfjöllunar en þetta væri líka leið til að tryggja heildstæðari umfjöllun um virkjunarkosti sem geta leitt af sér umtalsverð umhverfisáhrif með því að nota þá faglegu ferla sem við eigum til staðar, faglegu ferlana sem felast í málsmeðferð verkefnisstjórnar rammaáætlunar.