154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:34]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og ég vil líka nota tækifærið og koma ákveðnum leiðréttingum á framfæri. Af því að hv. þingmaður vísaði í gullgrafaraæði þá er það í rauninni eitt af því sem frumvarpið gerir ráð fyrir að heimamenn taki ákvörðun um það hvar viðkomandi vindorkulindir verða. Varðandi að það vanti lagaramma utan um vindorkuna þá erum við með lagaramma núna og erum búin að samþykkja núna á þessu þingi, því miður ekki allir sem samþykktu það, í bæði Búrfellslund og Blöndulund. Ég ætla ekki að fara aftur yfir hvað við erum búin að gera á þessu kjörtímabili, það er miklu meira heldur en var gert á undanförnum áratugum, en ég þarf augljóslega að fara oftar með þá upptalningu.

Varðandi kyrrstöðuna sem hv. þingmaður kannast ekki við þá vísa ég hér til opinberra gagna, annars vegar Landsnets og orkuspárinnar varðandi bæði hvernig þetta lítur út í framtíðinni og sömuleiðis hvað er búið að gerast á undanförnum árum. Það er það sem ég er að vísa til þegar ég er að vísa til kyrrstöðu. Sömuleiðis varðandi hitaveituna þá vísa ég í skýrslu sem verður kynnt þingnefndum og þjóð sem ÍSOR vann um hitaveiturnar. Þetta er bara það sem ég er að vísa til og fer ekkert á milli mála þegar menn skoða þessi gögn að það hefur verið kyrrstaða síðustu 15–20 árin.

Varðandi loftslagsvænar aðgerðir erum við núna í öfugum orkuskiptum, við erum að fara að nota jarðefnaeldsneyti þar sem við notuðum áður græna orku. Það segir sig sjálft að það er verk að vinna við að breyta því eins hratt og mögulegt er.

Varðandi Orkustofnun er rétt að það hefur verið kvartað undan því hvað það hefur gengið hægt og við höfum gert sérstaka úttekt á því ferli og erum að vinna eftir því. Í ofanálag mun ég, ef ég fæ hér á eftir, mæla fyrir frumvarpi sem mun gera það að verkum að þeir sem sækja um leyfi borgi. Höfum það alveg á hreinu að mér fyndist mjög skrýtið ef við þyrftum að hækka skatta fyrir orkufyrirtækin og þá sem vilja nýta sér orkukosti. (Forseti hringir.) Það er alveg skýrt í mínum huga að þeir sem sækja um leyfi og nota eftirlitið eða eru (Forseti hringir.) undir eftirliti eiga að greiða gjöld til að fjármagna það.