154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

verndar- og orkunýtingaráætlun.

900. mál
[19:57]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið en ég verð að viðurkenna að það kemur mér mjög á óvart. Nú þekki ég hv. þingmann og hef fylgst með hans málflutningi. Ég veit að hv. þingmaður þekkir mjög vel til, sérstaklega alþjóðamála. Hv. þingmaður veit mætavel að allar þjóðir sem við berum okkur saman við, sem eru með markmið í loftslagsmálum, eru að taka jarðefnaeldsneytið út, eins og við ætlum að gera, og setja græna orku í staðinn. Hv. þingmaður veit þetta. Mér finnst það leiðinlegt, því ég er oft sammála hv. þingmanni og finnst hann alla jafna málefnalegur, að hann sé með málflutning eins og þennan.

Nú er staðan sú að við Íslendingar — þess vegna er horft til okkar, þess vegna var orkumálaráðherra Bandaríkjanna t.d. að gera samning við mig, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, um samstarf í orkumálum. Það er litið til okkar og sagt: Heyrðu, þið hafið náð stórkostlegum árangri í orkuskiptum. Þið tókuð olíuna út — sem t.d. var notuð til að kynda húsið mitt í Borgarnesi, í Böðvarsgötunni — og settuð græna orku í staðinn. En nú erum við í öfugum orkuskiptum því að verksmiðjurnar — við settum metnað okkar í að nota græna orku í verksmiðjurnar, iðnaðinn — eru ekki lengur keyrðar áfram með grænni orku heldur með jarðefnaeldsneyti. Það gengur ekki ef þú ætlar að ná markmiðum í loftslagsmálum.

Það sem okkur vantar er græn orka til að taka út norsku olíuna, hvort sem það er í verksmiðjunum eða í bílunum, litlum og stórum. Síðan er markmiðið að taka fiskiskipaflotann. Við erum að sjá íslensk skipafélög sem eru að smíða vetnisskip, það þarf að framleiða rafeldsneyti þar, og sömuleiðis í millilandaflugið. Það er það sem heimurinn er að gera, það er það sem við erum að gera. Og menn eiga að tala um þá hluti eins og þeir eru. Það er auðvelt að vísa í alla umræðu um loftslagsmál úti um allan heim til að sjá að þetta er nákvæmlega það sem menn eru að gera.